ÍA vann öruggan sigur á HK í Lengjubikarnum

19.03 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í dag við HK í Lengjubikarnum í Akraneshöll. Lykilmenn eins og Árni Snær Ólafsson og Garðar Gunnlaugsson voru frá í dag og því héldu yngri leikmenn áfram að fá tækifæri. Fyrri hálfleikur byrjaði af krafti og strax á 6. mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar Albert Hafsteinsson skoraði með góðu skoti eftir skalla frá Steinari Þorsteinssyni.

 

Skagamenn héldu svo áfram að ógna marki HK án þess að skapa sér markverð færi fyrr en á 33. mínútu þegar Ásgeir Marteinsson fékk boltann utarlega í vítateig HK og hamraði hann efst í markhornið. Frábært mark og staðan orðin 2-0. Á markamínútunni frægu, þeirri 43., komst HK svo aftur inn í leikinn með ágætu marki eftir mistök í vörn ÍA. Okkar menn voru þó ekki hættir og á lokamínútunni skoraði Arnór Snær Guðmundsson með góðu skoti eftir varnarmistök gestanna.

 

Seinni hálfleikur var svo frekar tíðindalítill framan af. Skagamenn sköpuðu sér fá færi fram á við og HK var aldrei mjög líklegt til að minnka muninn. Baráttan var aðallega í fyrirrúmi og hafði á köflum áhrif á gæði fótboltans. Á 79. mínútu gerði ÍA svo út um leikinn þegar Ásgeir Marteinsson tók hornspyrnu og Ármann Smári Björnsson skoraði með góðum skalla. Skömmu síðar gátu Skagamenn svo skorað sitt fimmta mark þegar brotið var á Jóni Vilhelm Ákasyni innan vítateigs. Hann tók sjálfur vítaspyrnuna en skaut framhjá markinu. Á lokamínútunni skoraði HK svo sárabótamark og leikurinn endaði 4-2 fyrir ÍA.

 

Hér var um mikilvægan sigur að ræða til að komast í úrslitakeppnina í Lengjubikarnum. Næsti leikur verður miðvikudaginn 23. mars þar sem ÍA mætir KR í Akraneshöll.

Til baka