ÍA vann Víking R í Lengjubikarnum

01.04 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í gærkvöldi við Víking R í Lengjubikarnum í Egilshöll. Skagamenn urðu að vinna leikinn með þriggja marka mun til að komast áfram 8 liða úrslit í Lengjubikarnum eftir að KR vann sinn leik fyrr um daginn. Fyrri hálfleikur var ágætlega spilaður en ÍA náði ekki að skapa sér markverð færi framan af leik en Víkingar voru skeinuhættir í sínum sóknaraðgerðum. Víkingar fengu svo vítaspyrnu á 32. mínútu sem þeir skoruðu úr. Undir lok hálfleiksins náði Albert Hafsteinsson svo að jafna metin með frábæru marki í samskeytin. Staðan því 1-1 í hálfleik.

 

Víkingar voru sterkari aðilinn framan af seinni hálfleik og Árni Snær Ólafsson varði á köflum virkilega vel í leiknum. Okkar menn komust þó betur í gang þegar leið á hálfleikinn og fóru að skapa sér góð færi. Á 84. mínútu náði Arnar Már Guðjónsson að koma ÍA yfir með góðu marki og héldu menn því áfram að sækja af krafti. Í uppbótartíma fengu Víkingar vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr og þar með voru möguleikar ÍA á að komast áfram í Lengjubikarnum úr sögunni. En þegar lengra var liðið á uppbótartímann náðu Skagamenn góðri sókn sem leiddi til þess að Steinar Þorsteinsson skoraði af stuttu færi. Okkar menn unnu því leikinn 2-3.

 

Þetta var fyrsta tap Víkings í Lengjubikarnum en þeir unnu riðilinn með 12 stig. ÍA og KR urðu jöfn að stigum með 10 stig en KR hafði betra markahlutfall. 3-3 jafnteflið gegn Haukum reyndist liðinu dýrkeypt að lokum. Lengjubikarnum er því lokið í ár en framundan er spennandi Íslandsmót sem hefst 1. maí. Þökkum við fjölmörgum Skagamönnum sem hafa stutt liðið í leikjum liðsins hingað til. 

Til baka