Ingvar Þór Kale til liðs við ÍA

12.01 2017

Knattspyrnufélag ÍA hefur samið við markvörðinn Ingvar Þór Kale til eins leiktímabils. Mun hann því standa á milli stanganna með Skagamönnum í Pepsi deild karla í knattspyrnu á sumri komanda.

 

Leysir Ingvar markvörðinn Árna Snæ Ólafsson af, en hann sleit krossband í hné í byrjun nóvember og fór í uppskurð rétt fyrir jól. Árni Snær verður frá næstu mánuði vegna meiðslanna og á eftir að koma í ljós hvort hann getur leikið með Skagamönnum næsta sumar. Því þurfti félagið að finna markvörð í hans stað.

 

Það er ánægjulegt fyrir Knattspyrnufélag ÍA að fá Ingvar Þór til félagsins en hann er reynslumikill markmaður, en hann hefur á sínum ferli spilað 260 leiki með Víkingi, Breiðabliki og Val, þar af 140 í efstu deild. Hann hefur hampað Íslands- og bikarmeistaratitlinum með Breiðabliki og sömuleiðis orðið bikarmeistari með Val. Hann mun berjast um stöðuna við Pál Gísla Jónsson.  Ingvar kveðst sömuleiðis ánægður að hafa samvið við lið Skagamanna. „ÍA er frábær klúbbur með mikla hefð og merka sögu. Ég hafði mikinn áhuga um leið og það var haft samband við mig og ég tel mig hafa mikið fram að færa til að hjálpa liðinu í baráttunni næsta sumar. Síðasta sumar gekk ekki jafnvel hjá mér eins og árin þar á undan og ég er orðinn hungraður í árangur aftur,“ segir hann.
 

Til baka