Ítarlegt viðtal við Gulla Jóns þjálfara ÍA

03.10 2014

Nú er tæpur hálfur mánuður síðan Skagaliðið lauk þátttöku í 1. deild karla. Uppskeran varð 43 stig og markatalan 22 mörk í plús og það sem kannski mestu máli skipti var að félagið endurheimti sæti í deild þeirra bestu. Maðurinn í brúnni, er fyrrum leikmaður og fyrirliði félagsins til margra ára, Gunnlaugur Jónsson. Gulla beið ærið verkefni þegar hann tók við liðinu í október mánuði síðastliðnum en þá var liðið nýfallið úr Pepsi-deild karla. Þjálfarinn tók verkefninu af auðmýkt, gaf það síðan út með hækkandi sól að markmiðið væri einfalt. Það væri að endurheimta sæti í deild þeirra bestu.

 

Við hjá heimasíðu KFÍA settumst niður með þjálfaranum nú í vikunni og fengum hann aðeins til þess að lýta yfir farinn veg með okkur og spá í spilin fyrir það sem framundan er.

 

Við byrjuðum á að spyrja Gulla út í það hvernig það hefði verið að taka við liðinu fyrir hér um bil ári síðan og hvernig honum hefði fundist undirbúningstímabilið ganga: „Það var fyrst og fremst krefjandi að taka við liði eftir vonbrigðatímabil en oft fylgja því líka mikið af tækifærum sem hægt er að nota þegar farið er inní langt og strangt undirbúningstímabil.  Fram að jólum fór tíminn í að greina þann hóp sem við höfðum í höndunum og leita að liðsstyrk.  Hópurinn var klár í lok janúar og við byrjuðum deildarbikarinn mjög sterkt – með sigrum gegn BÍ/Bolungarvík, Fram og 4-4 jafntefli gegn Keflavík í leik sem við áttum að loka. Við lendum svo í mikilli meiðslakrísu og liðið heldur velli þannig að við fórum nokkuð brattir inn í mótið með skýrt markmið.“

 

Á vormánuðum var þér tíðrætt um mikilvægi liðsheildar. Hún væri lykillinn að því að góðum úrslitum. Hvernig fannst þér takast til í þeim efnum í sumar?
„Við náðum upp mjög sterkri liðsheild þar sem eldri leikmennirnir drógu vagninn, við vinnum okkur tvisvar uppúr erfiðum tímabilum, byrjuninni og um miðbik mótsins sem ég var sérstaklega stoltur af þegar við vinnum 7 leiki af 8, eftir 3 erfið töp með stuttu millibili.  Við missum aðeins einn leikmann í leikbann með 4 gul spjöl og héldum markinu hreinu í 9 leikjum í sumar.  Í þessum erfiðu tímabilum þá hélst mórallinn góður og menn svöruðu fyrir sig á vellinum, allt þetta tökum við með okkur inní veturinn og byggjum á fyrir næsta tímabil.“

 

Þú nefndir í viðtali við ÍA-blaðið í vor, mikilvægi þess að efla heimavöllinn og gera hann að meira vígi. Uppskeran á Norðurálsvellinum í sumar voru sjö sigrar og fjögur töp og markatalan 6 mörk í plús. Ertu sáttur við uppskeru félagsins á Norðurálsvellinum í sumar, ef ekki hvað getum við bætt þar?
„Nei ég er ekki sáttur við þessa tölfræði, það er ekki nógu gott og þetta eru of margir tapleikir. Við erum með betri árangur á útivelli og það er reyndar mjög athyglisvert að skoða söguna í þessu samhengi því við höfum alltaf verið með betri árangur á útivelli í 1.deild. Sem betur fer hefur það ekki fylgt okkur í efstu deild og við verðum því að vona að það sama verði á næstu árum.  Það verður að viðurkennast að stemmningin á Norðurálsvelli var ekki nógu góð.  Oft var stuðningssveitin háværari á útivöllum hvernig sem stendur á því. Það er ljóst að við þurfum að styrkja okkur á þessum vígstöðvum fyrir Pepsí-deildina.“

 

Skagaliðið átti góðu gengi að gegna á útivöllum í sumar og unnist til að mynda afar sterkir sigrar á Leiknir. R, Haukum, Víking Ó. og Þrótti R. Einnig unnust stórsigrar á Tindastól og liði Djúpmanna. Uppskeran varð að lokum meiri stigafjöldi en á heimavelli eða samtals 7 sigrar, eitt jafntefli og þrjú töp. Samtals 22 stig og markatalan 16 mörk í plús. Hvernig útskýrirðu þennan flotta árangur liðsins að heiman á nýliðnu tímabili?
„Þarna komum við aftur að liðsheildinni. Við náðum oft á tíðum mikilli stemmningu í þessum ferðum. Okkar stærstu sigrar í sumar eru margir á útivelli og það er eitthvað sem þurfum að rýna betur í.“

 

Talsverðar breytingar urðu á liði Skagamanna í fyrra vetur. Allir erlendu leikmennirnir hurfu á braut auk þess sem fyrirliði liðsins síðustu ár, Jóhannes Karl gekk í raðir Fram. Í staðinn fengum við fimm nýja leikmenn, þá Hjört Hjartar, Darren Lough, Ingimar Elí, Wentzel Steinarr og Arnór Snæ. Hvernig fannst þér liðið brúa þetta bil og hvernig fannst þér nýju leikmennirnar standa sig á þessum tímabili?
„Bara mjög vel, Ég var mjög ánægður með þennan liðsauka, við lögðum áherslu að finna sterka einstaklinga sem kæmu sterkt félagslega inní hópinn og það gerðu þeir allir. Darren var mjög traustur sem vinstri bakvörður og átti skínandi tímabil, Ingimar missti af fyrstu leikjum tímabilsins eftir erfið meiðsli um vorið og kemur sterkur inn og stendur sig mjög vel en lendir aftur í meiðslastússi undir lokin en flott tímabil. Það sama á við Arnór Snæ sem var meiddur rétt fyrir tímabilið og var ekki 100% klár þegar mótið fer í gang og missir svo af HK leiknum vegna meiðsla og þá kom Gylfi mjög öflugur inn en frá og með Víking Ólafsvíkur leiknum úti kemur Arnór frábærlega inn.  Wentzel var að glíma við meiðsli í hásin þegar hann kom til okkar og þau meiðsli tóku mun lengri tíma en áætlað var. Vegna þeirra missti hann af mjög mikilvægum tíma á undirbúningstímabilinu. Eftir það náði hann aldrei almennilegum takti enda að spila að jafnaði 15-30 mín í mánuði. Það ber þó að hrósa honum fyrir sitt framlag því hann var frábær liðsfélagi í sumar og  var mikilvægur hluti af liðsheildinni. Sama má segja um Jón Björgvin sem var í svipaðri stöðu og Wentzel en skilaði ómetanlegu hlutverki innan hópsins þó spiltíminn hafi kannski ekki alltaf verið mikill. Hjörtur kom svo inn á þeim tíma sem fyrirfram maður hefði óskað sér – þegar leið á mótið og línur farnar að skýrast og þegar liðið þurfti að stíga í lappirnar. Hann var frábær fyrir vestan, mjög góður gegn Þrótti heima og svo gerði hann gæfumuninn í stórleiknum gegn Leikni í Breiðholtinu.“

 

Fyrir var kjarni leikmanna sem hefur leikið með liðinu um árabil og flestir þeirra uppaldnir hjá félaginu. Ef þú lýtur yfir leikmannahópinn, hvernig fannst þér hann standa sig heilt yfir?
„Ég var mjög ánægður með leikmannahópinn, aldursblandan var góð og það myndaðist mikil stemmning í hópnum.  Þá fengu ungir leikmenn eins og Árni Snær, Hallur, Teitur, Gylfi og Sindri stærra hlutverk en áður og stóðu sig allir ljómandi vel.“

 

Framtíðin virðist vera björt í yngri flokkum félagsins. Því til rökstuðnings má nefna flottan árangur 2. flokks félagsins þar sem 2. sætið náðist bæði í deild og bikar. Þú hefur væntanlega fylgst með liðinu í sumar og sérðu einhverja leikmenn þar fyrir þér sem gætu orðið framtíðarmenn hjá meistaraflokki félagsins á næstu árum? 
„Sammála því – 2. flokkurinn hefur tekið miklum framförum frá því í byrjun tímabilsins og þeir sýna mikinn karakter í lok tímabilsins þar sem þeir eru að klára leiki undir lokin og þrátt fyrir að tapa bikarúrslitaleiknum þá gáfust þeir ekki upp í stöðunni 3-0 og voru hársbreidd frá því að jafna undir blálokin. Ég sé nokkra leikmenn í þessum flokk sem geta tekið skrefið sem farsælir meistaraleikmenn í framtíðinni.“

 

Skaginn hefur alla tíð átt mikinn fjölda tryggra stuðningsmanna sem fylgt hafa liðinu í gegnum súrt og sætt. Í sumar varð engin breyting þar á og voru Skagamenn oftar en ekki í meirihluta á útileikjum félagsins. Varstu sáttur við stuðninginn sem félagið fékk í 1. deildinni í sumar?
„Ég er mjög ánægður með þann fjölda sem fylgir okkur í útileikina en stuðningurinn má vera betri, bæði heima og á útivelli ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Sérstaklega verðum við að bæta í hérna á heimavelli og ég sé fyrir mér stærri umgjörð fyrir leikina. Hver leikur er viðburður og við eigum að geta gert meira í tengslum við leikinn sjálfan.“

 

Nú verður talsverður fjöldi leikmanna Skagaliðsins samningslaus í haust. Er vinna hafin við að endursemja við þessa leikmenn? „Já, við erum að vinna í þeim málum þessa daganna.“

 

Það hefur komið fram í viðtölum við þig á síðustu vikum að ætlunin sé að styrkja mannskapinn fyrir komandi átök í deild þeirra bestu. Hvaða stefnu ætlið þið að taka í þeim efnum?
„Við stefnum á að styrkja hópinn og erum að skoða þau mál næstu daga en ég hef sagt að við viljum fá gæði í liðið en við erum ekki að leita af mörgum leikmönnum. Við verðum að vanda okkur en það erfiðara að styrkja lið í efstu deild heldur en fyrir fyrstu deild, það eru ekki margir innlendir leikmenn sem eru lausir og það verður barist um stærstu bitanna.“

 

Hvað tekur nú við hjá liðinu þegar tímabilinu er formlega lokið?
„Liðið er komið í frí og mun koma saman mánaðarmótin okt/nóv og hefja æfingar.“

 

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri sjálfur að lokum?
„Við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir Pepsi-deild karla. Allir sem að klúbbnum standa, þjálfarar, leikmenn, stjórn, starfsmenn og stuðningsmenn geta bert betur en í sumar og það á að vera keppikefli okkar fyrir næsta tímabil.“ sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA í ítarlegu viðtali við heimasíðu félagsins.

Til baka