Jafntefli gegn Víkingum

17.05 2015

Skagamenn mættu Víkingum í hörkuleik í kvöld á Norðurálsvellinum en leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli.


Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað – Árni Snær, Þórður Þ. Þórðars, Ármann Smári, Arnór Snær, Teitur Péturs – Arnar Már Guðjónss, Jón Vilhelm Ákason, Albert Hafsteins, Ásgeir Marteinsson – Arsenij Buinickij og Garðar Gunnlaugs.
Lið Skagamanna var óbreytt frá sigurleiknum gegn Leikni nema fyrir utan þá breytingu að Ásgeir Marteinsson kom inn í liðið í stað Marko Andelkovic sem glímir við smávægjileg meiðsli.


Það má segja að vindurinn hafi verið í aðalhlutverki fyrstu mínútur leiksins og báðum liðum gekk erfiðlega að byggja upp markverðar sóknir. Þegar um stundarfjórðungur var liðinn af leiknum áttu Víkingarnir sókn upp hægri kantinn sem endaði með fyrirgjöf fyrir markið sem sóknarmaður Víkinga afgreiddi með skoti og virtist sem boltinn hafi breytt stefnu af Þórði Þorsteini og þaðan í netið. Staðan því orðin 0-1 fyrir gestina.


Víkingarnir voru sterkari eftir þetta og fengu ágæt færi til þess að bæta í forystuna. Jón Vilhelm átti síðan fyrstu alvöru marktilraun heimamanna í leiknum á 30 mín leiksins þegar frábær aukaspyrna hans hafnaði í þverslánni.
Gestirnir svöruðu þessu með stórsókn í kjölfarið og hafnaði tilraun þeirra í markvinklinum á marki heimamanna. Á 42 mín leiksins áttu Skagamenn fína sókn sem hófst með flottri sendingu Ásgeirs Marteinssonar upp á hægri vænginn þar sem Jón Vilhelm tók frábæra fyrirgjöf sem Víkingum mistókst að hreinsa. Boltinn datt fyrir fætur Garðars Gunnlaugssonar sem afgreiddi boltann frábærlega í netið og staðan því orðin 1-1. Eftir að hafa verið slakir framan af fyrri hálfleik þá tóku Skagamenn við sér þegar leið á hálfleikinn og náðu inn mikilvægu jöfnunarmarki.


Heimamenn komu virkilega grimmir til leiks í seinni hálfleik og má segja að urmull marktækifæra hafi skapast til þess að klára leikinn. Ásgeir Marteinsson átti flotta fyrirgjöf á kollinn á Jóni Vilhelm en skalli hans fór rétt framhjá markinu. Í kjölfarið átti Garðar stungusendingu á Arsenij sem komst einn í gegn en markvörður gestanna varði vel frá Litháanum. Á 64 mín leiksins átti Þórður Þorsteinn frábært upphlaup að endalínu þar sem hann vann boltann af varnarmanni gestanna og gaf þaðan boltann fyrir markið á Arsenij sem brenndi af í dauðafæri. Um stundarfjórðung síðar var sama uppskrift þegar Þórður kom boltanum fyrir markið og Arsenij átti fína tilraun sem var björguð af marklínu af varnarmanni Víkinga.


Stuttu síðar þurftu Skagamenn að gera breytingu á sínu liði þegar Ármann Smári fór út af eftir að hafa misstigið sig og inn á kom Gylfi Veigar í hjarta varnarinnar. Víkingar fengu kjörið tækifæri til þess að stela sigrinum stuttu fyrir leikslok þegar sóknarmaður þeirra slapp í gegn en Árni Snær gerði frábærlega í að verja. Í uppbótartíma skoruðu Víkingar mark sem var réttilega dæmt af eftir brot á Árna Snæ í markinu. Leikurinn fjaraði út eftir þetta og niðurstaðan 1-1 jafntefli.


Eftir fremur dapran fyrri hálfleik þá sýndu Skagamenn styrk sinn og yfirspiluðu þeir Víkingsliðið á löngum köflum í seinni hálfleik. Fjöldi tækifæra skapaðist til þess að taka stigin þrjú en allt kom fyrir ekki en strákarnir geta samt sem áður verið ánægðir með spilamennskuna og þá sér í lagi síðari hálfleikinn. Ásgeir Marteinsson sem var mjög sprækur í leiknum var verðskuldað kosinn maður leiksins.


Framundan er verðugt verkefni í Krikanum þegar Skagamenn mæta FH-ingum á miðvikudaginn kemur.

Til baka