Garðar tryggði jafntefli gegn Víkingum í kvöld

05.08 2015

Skagamenn sóttu Víkinga heim í Fossvoginn í kvöld og endaði leikurinn með jafntefli 1-1. Leikurinn hófst af krafti af hálfu heimamanna og skoruðu þeir gott mark eftir þrjár mínútur. Það tók okkar menn nokkurn tíma að komast aftur í leikinn en hálfleikurinn einkenndist af baráttu beggja liða. Nokkur færi komu á báða bóga en á 32. mínútu jöfnuðu Skagamenn leikinn þegar Garðar Gunnlaugsson skallaði boltann í markið eftir hornspyrnu Jóns Vilhelms Ákasonar. Eftir þap gerðist fátt markvert og staðan var því 1-1 í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik komu okkar menn mun grimmari til leiks og sköpuðu sér mikið af ágætum færum, sérstaklega eftir föst leikatriði. Víkingar fengu fá færi og það voru Skagamenn sem fengu bestu færin, Ármann Smári Björnsson átti tvo skalla yfir markið eftir hornspyrnu og Albert Hafsteinsson átti skot rétt framhjá marki Víkings. Skagamenn gerðu svo kröfu um vítaspyrnu í seinni hálfleik þegar varnarmaður Víkings fékk boltann í hendina í vítateig heimamanna en dómari leiksins dæmdi ekki neitt þrátt fyrir að margt væri til í þeirri kröfu. Eftir þetta fjaraði leikurinn hægt og rólega út.

 

Leikurinn endaði því með jafntefli 1-1 þar sem Víkingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en í þeim síðari voru Skagamenn mun sterkari. Varnarleikurinn var sem fyrr til fyrirmyndar og föstu leikatriðin halda áfram að vera hættulegustu marktækifærin. Þetta jafntefli tryggir að við erum enn sex stigum frá fallsæti og staðan er því góð en í næsta leik koma FH-ingar í heimsókn og við verðum að mæta vel undirbúnir í þann leik.

 

Að endingu verður að þakka stuðningsmönnum félagsins fyrir frábæra mætingu í kvöld, af rúmlega 900 áhorfendum var stór hluti af því Skagamenn sem létu vel í sér heyra. Er vonandi að við náum að halda slíkri stemningu áfram á Norðurálsvelli mánudaginn 10. ágúst gegn FH. 

Til baka