Jafntefli hjá stelpunum gegn HK/Víking

23.07 2015

Stelpurnar mættu HK/Víking í 1. deild kvenna á Víkingsvelli í gærkvöldi. Um hörkuleik var að ræða en HK/Víkingur var sterkari aðilinn framan af enda í toppsæti riðilsins. Þrátt fyrir það var vörn ÍA sterk og liðið fékk nokkur færi sem ekki náðist að nýta. Staðan var því markalaus í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik stóðu okkar stelpur fyrir sínu og fengu ágæt færi en náðu ekki að skora sigurmarkið. HK/Víkingur var svo ógnandi og fékk álitleg færi sem sterk vörn ÍA náði alltaf að hreinsa frá. Leikurinn endaði því með 0-0 jafntefli sem var fjórða jafntefli liðsins í sumar. Þar hafa mörg stig farið forgörðum og niðurstaðan er sú að stelpurnar eru 10 stigum á eftir HK/Víking en eiga samt einn leik til góða. Einnig er áhugavert að hugsa til þess að einu stigin sem HK/Víkingur hefur tapað í sumar í 8 leikjum eru jafnteflisleikirnir gegn ÍA. Sýnir það styrkleika stelpnanna gegn sterkum mótherjum en jafnteflin eru dýrkeypt.

 

Við horfum bara bjartsýn fram á næsta leik sem er gegn Haukum á Norðurálsvelli laugardaginn 8. ágúst kl. 14:00 og hvetjum við Skagamenn til að mæta og styðja stelpurnar okkar í þeim leik.

Til baka