Jafntefli í lokaleik tímabilsins

21.09 2014

Skagamenn mættu liði KA-manna í lokaleik tímabilsins norðan heiða í dag og lauk leiknum með 2-2 jafntefli sem jafnframt var eina jafntefli Skagamanna á öllu tímabilinu.


Gunnlaugur Jónsson þjálfari Skagamanna gerði nokkrar breytingar á liðinu frá síðasta leik gegn Haukum. Páll Gísli kom í markið, Gylfi Veigar leysti stöðu hægri bakvarðar í stað Teits Péturssonar, Arnar Már kom aftur inn í liðið eftir leikbann, Þórður Þ. Þórðarson fékk tækifæri með liðinu en hann hefur spilað vel með 2. flokk félagsins í sumar auk þess sem Eggert Kári kom inn í liðið fyrir Jón Vilhelm.


Leikurinn var bæði opinn og fjörugur þá sérstaklega framan af leik þar sem liðin skiptust á að sækja. Heimamenn byrjuðu leikinn betur og höfðu náð forystunni eftir einungis 2 mín leik en Skagamenn náðu að jafna metin um stundarfjórðung síðar og var þar á ferðinni Garðar Gunnlaugsson. Garðar er búinn að vera sjóðheitur í sumar og endaði hann langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 19 mörk í 21 leik. Glæsilegur árangur það.


Liðin héldu áfram að skiptast á að sækja það sem eftir lifði hálfleiksins en allt kom fyrir ekki og staðan var 1-1 í hálfleik. Í upphafi síðari hálfleiks fengum heimamenn dæmda ansi ódýra vítaspyrnu sem dæmd var á Pál Gísla í marki Skagamanna. Skagamenn vildu meina að Páll hefði tekið boltann fyrst en vítaspyrna var dæmd og Hallgrímur Mar skoraði örugglega úr henni fyrir heimamenn og staðan orðin 2-1 fyrir KA.


Það tók Skagaliðið einungis tvær mínútur að jafna metin en þá skoraði Eggert Kári Karlsson af stuttu færi eftir hornspyrnu. Nokkuð fjaraði undan leiknum eftir þetta en bæði lið fengu þó tækifæri til þess að stela sigrinum undir lokin án þess þó að nýta tækifærin. Niðurstaðan því 2-2 jafntefli í lokaleik tímabilsins sem þýddi að Skagaliðið endaði tímabilið í 2. sæti deildarinnar með 43 stig.


Löngu og ströngu tímabili er því lokið og settu Skagamenn sér skýr markmið í upphafi tímabils sem var að endurheimta sæti í deild þeirra bestu. Markmiðið náðist með glæsibrag og var sætið gulltryggt þegar enn voru tvær umferðir eftir að mótinu. Þrátt fyrir erfiðleika í upphafi og um miðbik tímabils þar sem jafnir leikir töpuðust þá sýndi liðið alltaf mikinn karakter og komst á sigurbraut á ný. Niðurstaðan varð á endanum 2. sæti deildarinnar þar sem 43 stig söfnuðust en liðið skoraði einnig flest mörk allra liða í deildinni.

Framundan eru léttar æfingar hjá Skagaliðinu en síðan tekur við kærkomið frí áður en hið langa og stranga undirbúningstímabil hefst fyrir átökin í Pepsi-deild karla.


Viðtal við Gulla þjálfara eftir leik við fotbolti.net má sjá á meðfylgjandi link: http://fotbolti.net/news/20-09-2014/gunnlaugur-styrking-ekki-spurning-um-magn-heldur-gaedi


Leikskýrsla á http://www.ksi.is má sjá á: http://www.ksi.is/mot/motalisti/leikskyrsla/?Leikur=341877

Til baka