Jafntefli í Vesturbænum.

16.06 2015

Skagamenn mættu liði KR-inga í gærkvöld á Alvogen-velllinum í Vesturbænum og lyktaði leiknum með 1-1 jafntefli. Skagaliðið mætti kröftugt til leiks og uppskar þó nokkkur færi í fyrri hálfleiknum.  Ásgeir Marteins slapp í gegn á 10 mín leiksins en brást bogalistinn í þröngu færi.


Skagamenn fylgdu þessu eftir með fínum sóknum og fengu bæði Ásgeir og Jón Vilhelm fín tækifæri til þess að koma þeim gulklæddu yfir en allt kom fyrir ekki. Það var síðan stuttu fyrir leikhlé sem Óli Valur átti frábæra fyrirgjöf fyrir mark heimamanna og þar stökk Ásgeir Marteinsson manna hæst og stangði boltann glæsilega í fjærhornið og staðan orðin 0-1 fyrir gestina.


Í síðari hálfleiknum þá komu KR-ingarnir grimmir til leiks og uppskáru talsvert af hættumlegum færum. Jöfnunarmarkið kom þegar stundarfjórðungur var liðinn af hálfleiknum eftir mikinn darraðadans í vítateig Skagamanna. KR-ingarnir héldu áfram að sækja eftir þetta og freistuðu þess að ná inn sigurmarkinu en vörn Skagamanna stóð vaktina vel.
Á 70 mín leiksins þá kom Steinar Þorsteinsson inn á sínum fyrsta leik fyrir félagið með meistaraflokki en Steinar er virkilega efnilegur leikmaður og einn af lykilmönnum í 2.flokk félagsins. Steinar fiskaði einmitt aukaspyrnu þegar stutt var til leiksloka en spyrnuna tók Jón Vilhelm og varði markvörðu KR-inga meistaralega og fengu Skagamenn tvö tækifæri í kjölfarið til þess að stela sigrinum en tókst ekki.


Bæði lið fengu tækifæri til þess að skora þriðja markið en voru mislagðar fætur í góðum færum og má segja að úrslitin hafi verið sanngjörn.
Það ber að hrósa Skagaliðinu fyrir leikinn í kvöld. Drengirnir mættu algjörlega óragir í Frostaskjólið og börðust eins og ljón frá fyrstu mínútu. Með smá heppni hefðu þeir getað tekið öll stigin en frammistaðan hjá liðinu var virkilega flott.


Framundan er gríðarlega mikilvægur leikur gegn liði Keflvíkinga á Norðurálsvellinum og fer hann fram mánudaginn 22 júní næstkomandi.

Til baka