Jólakveðja frá Knattspyrnufélagi ÍA

24.12 2014

Kæru stuðningsmenn !


Knattspyrnufélagið ÍA á sér merka sögu sem við getum öll verið stolt af. Iðkendur eru nú orðnir vel yfir 500 og fer fjölgandi og aðstandur skipta þúsundum. Hjá knattspyrnufélagi ÍA slær Skagahjartað okkar allra.
Árið 2014 var að viðburðaríkt og gjöfult fyrir Knattspyrnufélag ÍA. Meistaraflokkur karla vann aftur sæti í efstu deild undir stjórn Gunnlaugs Jónssonar þar sem sterk liðsheild og samheldni var einkennandi fyrir hópinn.. Meistaraflokkur kvenna féll úr efstu deild en þetta unga lið fékk mjög góða reynslu sem vonandi mun nýtast þeim í baráttunni um sæti meðal þeirra bestu að nýju á næsta ári.
Starfið í yngri flokkunum gekk vel á árinu 2014. Við fengum tvo Íslandsmeistaratitla í hús en bæði 4.flokkur kvenna b-lið og 3.flokkur karla b-lið urðu Íslandsmeistarar eftir dramatíska úrslitaleiki. Auk þess varð sameiginlegt lið ÍA/Þróttar í 2. fl. kvenna bikarmeistari á árinu eftir að hafa sigrað Breiðablik í úrslitaleik. Annar flokkur karla stóð sig mjög vel á árinu og varð í 2. sæti bæði í deild og bikar. Að öðru leyti var nóg um að vera hjá hinum iðkendum í félaginu í öllum aldursflokkum.
Til að gefa innsýn í umfangið hjá félaginu þá voru spilaðir 444 opinberir leikir á vegum KSÍ í öllum flokkum ÍA á árinu 2014. Að halda utan um svo stórt verkefni er ekki mögulegtn nema með góðri samvinnu fjölmarga starfsmanna og aðstandenda og ber að þakka þjálfurum, iðkendum, dómurum og vallarstarfsmönnum sérstaklega fyrir sinn þátt í því.
Norðurálsmótið tókst mjög vel þetta árið og vorum við mjög heppin með veðrið sem hefur alltaf mikil áhrif á upplifun þátttakenda og aðstandenda. Metþátttaka var í mótinu en um 1250 keppendur skemmtu sér vel á mótshelginni 20.-22. júní og er talið að allt að 7000 gestir hafi sótt Akranes heim þá helgina.
Töluverðar mannabreytingar urðu innan félagsins á árinu. Mikil endurnýjun varð í stjórn félagsins þar sem Magnús Guðmundsson var kosinn formaður og með honum Sævar Freyr Þráinsson sem varaformaður. Þeir hafa leitt nýja stefnumótun í félaginu sem stefnt er að kynna á aðalfundi í febrúar. Skipt var um þjálfara í m.fl kvenna á miðju sumri, en þá þurfti Magnea Guðlaugsdóttir að draga sig í hlé vegna persónulegra aðstæðna og Þórður Þórðarson tók við. Samningur við Þórð hefur verið endurnýjaður fyrir árið 2015. Rakel Jóhannsdóttir sagði upp störfum á skrifstofunni á miðju sumri og hætti hún störfum í byrjun september.  Henni ber að þakka vel unnin störf fyrir félagið í gegnum árin. Í staðinn var ráðin til Elfa Björk Sigurjónsdóttir, viðskiptafræðingur, sem starfað hefur hjá endurskoðunarskrifstofunni Deloitte undanfarin ár.
Framundan er fótboltaárið 2015 og þá þurfum við sem aldrei fyrr að efla stuðning við liðin okkar á vellinum og ná fram þeim mikilvæga kjarna sem hefur einkennt gula og glaða um langt árabil. Til þess að góður árangur náist þarf félagið aldrei sem fyrr á einstaklingum að halda sem gefa sér tíma til þess að sinna sjálfboðastörfum og einnig þurfum við að treysta á Akraneskaupstað og öflugan hóp fyrirtækja sem hafa ávallt stutt við reksturinn í blíðu og stríðu. Þessum aðilum er seint hægt að þakka nógu mikið og án þeirra getur Knattspyrnufélag ÍA ekki verið.

Gleðileg jól og farsælt komandi fótboltaár! Áfram ÍA

Bestu kveðjur,

f.h. Knattspyrnufélags ÍA
Magnús Guðmundsson, formaður
Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður
Haraldur Ingólfsson, framkvæmdastjóri

Til baka