“Lambalæri úr Einarsbúð varð fyrir valinu.”

19.12 2014

Haraldur Ingólfsson, framkvæmdastjóri knattspyrnufélagsins og fjölskylda hans eru ekki fastheldin á jólamat á aðfangadagskvöld og finnst skemmtilegt að breyta til á milli ára.  "Að þessu sinni varð fyrir valinu fyllt lambalæri úr Einarsbúð" sagði Haraldur. "Við ákveðum oftast með stuttum fyrirvara hvað við ætlum að hafa í jólamatinn hverju sinni og lambalærið varð fyrir valinu að þessu sinni.  Sú hefð er hjá okkur að við setjum möndlu í eftirréttinn og af einskærri tilviljun hefur mandlan í gegnum tíðina oftast lent á diski barnanna"

"Á jóladag förum við fjölskyldan í hangikjöt til tengdaföðurs míns og þar hittast einnig systkini Jónínu konu minnar og fjölskyldur þeirra. Þetta er föst hefð hjá okkur. En ekki má gleyma Þorláksmessuskötunni en við förum alltaf til móður minnar í þá veislu."  sagði Haraldur.

 

Á knattspyrnuárum sínum erlendis héldu Haraldur og Jónína jól í þremur löndum, í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi. En Haraldur lék með Raufoss í Noregi, Elfsborg í Svíþjóð og Aberdeen í Skotlandi.  

"Það var vissulega skemmtilegt að kynnast jólahefð þessarra þjóða. En okkur fannst  norsku jólin komast næst hátíðleika íslensku jólanna. Norðmennirnar búa sig uppá  á aðfangadagskvöld eins og við og stórfjölskyldan hittist á jóladag. Í Svíþjóð fannst okkur hátíðleikinn ekki alveg sá sami eins og í Noregi. En í Skotlandi var þetta með allt öðrum hætti og alla vega fannst okkur vanta mikið upp á jólastemninguna eins og við þekkjum hana.  Margir fara á kránna á aðfangadagskvöld og síðan eru jólapakkarnir teknir upp á jóladagsmorgni. En auðvitað hafði sitt að segja að mikil hefð er fyrir því á Bretlandseyjum að leiknar séu tvær til þrjár umferðir í fótboltanum um hátíðirnar og var því æft stíft á milli leikja."

Haraldur segist vera hæfilega skotglaður á gamlárskvöld en hefði vissulega gaman að taka þátt í flugeldasýningunum og fjölskyldan færi alltaf og fylgdist með brennunni á Viðigrundinni.  

Til baka