Leikdagur á Norðurálsvelli

29.06 2016

Þessa dagana er EM í Frakklandi klárlega mál málanna og allir elska fótbolta, jafnvel þeir sem aldrei áður hafa kunnað að meta hann. Enda ómögulegt að vera ósnortinn af því ævintýri sem þar er enn í fullum gangi.

 

Þrátt fyrir þetta er hin harða barátta í Pepsideildinni einnig í fullum gangi og í kvöld, kl. 20:00 tekur meistaraflokkur karla á móti Stjörnunni hér á Norðurálsvellinum. Þetta verður erfiður leikur en okkar menn mæta til leiks ákveðnir í að byggja ofan á frábæran sigur á KR í Vesturbænum í síðustu umferð. Þeir sem ekki fóru á þann leik misstu af frábæru sigurmarki frá Garðari Gunnlaugssyni, markið (og hin mörkin úr leiknum) má sjá hér: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=CLP46631

 

Að venju verður maður leiksins valinn eftir leikinn og verðlaunaður í samstarfi við listamann á svæðinu. Að þessu sinni er það listakonan Hrönn Eggertsdóttir sem gefur fallegt listaverk og verður spennandi að sjá hver eignast það. Allir Skagamenn þekkja Hrönn því hún hefur kennt myndlist í Brekkubæjarskóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands og við Iðnskólann á Akranesi og haldið ýmis námskeið fyrir börn og fullorðna. Hrönn útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974 með myndmenntakennararéttindi eftir fjögurra ára nám. Hún hefur haldið margar einka- og samsýningar á verkum sínum. Hægt er að hafa samband við Hrönn í síma 431 2781 eða á Facebooksíðu hennar.

 

Það eru ekki bara strákarnir í landsliðinu sem hafa hlotið lof á EM heldur einnig íslensku stuðningsmennirnir sem hafa alls staðar hlotið lof fyrir öflugan stuðning og prúðmannlega framkomu. Það hefur sýnt sig að öflugur stuðningur getur lyft liðum á hærra plan. Sjáumst á vellinum og sameinumst um að hvetja strákana til dáða.

Til baka