“Leikurinn við Tindastól verður gríðarlega erfiður.”

19.08 2014

Í kvöld fer fram heil umferð í 1. deild karla en þá fá Skagamenn lið Tindastóls í heimsókn á Norðurálsvöllinn og hefst leikurinn kl. 18.45.

Skagamenn máttu sætta sig við 2-1 tap í síðustu umferð gegn liði HK en Stólarnir töpuðu einnig sínum leik á heimavell 0-2 gegn liði Selfoss. Skagaliðið vermir samt sem áður ennþá 2. sæti deildarinnar og geta með sigri í kvöld styrkt stöðu sína á meðan Stólarnir leita enn að sínum fyrsta sigri í sumar.

Við heyrðum í Garðari Gunnlaugssyni framherja ÍA nú í morgunsárið og en hann hafði þetta að segja um gang mála:

Við lékum gegn liði HK í síðustu umferð og máttum sætta okkur við 2-1 tap. Hvernig fannst þér sá leikur spilaður af okkar hálfu? Hvað var það sem vantaði helst upp á?

"Þrátt fyrir að sá leikur hafi tapast þá getum við tekið fullt af jákvæðum punktum með okkur úr þeirri viðurreign. Við byggðum upp margar góðar sóknir og vörðumst vel. Því miður þá nýttum við ekki færin á meðan þeir skora tvö stórfengleg mörk úr erfiðum aðstæðum. Fyrir utan mörkin þá voru þeir ekki að skapa sér neitt aukalega."

Framundan í kvöld er heimaleikur á Norðurálsvellinum gegn liði Tindastóls. Hvernig horfir sá leikur við þér?

"Leikurinn við Tindastól verður gríðarlega erfiður. Allir sem koma uppá Skaga berjast til síðasta blóðdropa þannig að Tindastóll verður sýnd veiði en ekki gefin þrátt fyrir stöðu þeirra í deildinni" sagði Garðar í stuttu samtali við vefsíðu KFÍA.

Við minnum á breyttan leiktíma í kvöld kl 18.45 og hvetjum alla til þess að mæta og styðja strákanna í baráttunni um sæti í efstu deild að ári.

Til baka