Lengjubikarinn í Höllinni

16.04 2015

Í dag kl. 18:00 mun meistaraflokkur karla mæta Fjölni í sínum síðasta heimaleik í Lengjubikarnum. Ef úrslit í leiknum verða hagstæð munu strákarnir mæta Fylki eða KA á útivelli í undanúrslitum keppninnar.

Þetta er því kjörið tækifæri til að koma á einn af síðustu leikjum vetrarins í Akraneshöllinni og sjá hvernig strákarnir eru að mæta inn í sumarið.  Liðið er að slípast betur saman með hverjum leik og er nýkomið til baka úr æfingaferð til Danmerkur.  Það er ljóst að það mun enginn láta sitt eftir liggja nú þegar styttist í fyrsta leik sumarsins sem verður eins og flestir vita hér á Norðurálsvellinum 3. maí næstkomandi þegar Íslandsmeistarar Stjörnunnar koma í heimsókn.  Meira að segja þeir sem ekki taka þátt í leiknum munu leggja sitt að mörkum, standa vaktina í sjoppunni og selja kaffi, pizzur og fleira góðgæti.

Vorið er komið og boltinn farinn að rúlla – nú duga engar afsakanir, nú mæta allir í Höllina að hvetja sína menn, það kostar ekki krónu inn!

Til baka