Maður leiksins gegn Fjarðabyggð

02.09 2015

Eins og flestum er orðið ljóst tryggði meistaraflokkur kvenna sér sæti í undanúrslitum 1. deildar með góðum 3-0 sigri á Fjarðabyggð á Norðurálsvelli í gærkvöldi. Grindavík og Augnablik eigast við í sínum seinni leik í átta liða úrslitum síðar í dag en það er ekki fyrr en úrslit liggja fyrir í þeim leik sem við vitum hver næsti andstæðingur stelpnanna okkar. 

Eyrún Eiðsdóttir, sem skoraði annað mark ÍA, var valin maður leiksins. Hún fékk að launum fallegt vatnslitaverk eftir Söru Björk Hauksdóttur. Sara býr sjálf í Svíþjóð en hér má sjá Álfrúnu Emblu Hrannarsdóttur, bróðurdóttur Söru, og Írisi Emblu Andradóttur vinkonu Álfrúnar afhenda listaverkið. Við þökkum Söru Björk fyrir þessa höfðinglegu gjöf og Eyrúnu fyrir flotta frammistöðu.

Í baksýn má sjá Ágústu Friðriksdóttur stilla ÍA stelpum upp fyrir myndatöku en iðkendum yngri flokka kvenna var boðið í myndatöku með liðinu eftir leik. Ætlunin er að bjóða upp á slíka myndatöku aftur eftir næsta heimaleik stelpnanna en hann verður næstkomandi sunnudag, 6. september, kl. 12:00. Þá viljum við sjá miklu fleiri stelpur, það væri skemmtilegt að eiga góða mynd af okkar flotta iðkendahópi í kvennaknattspyrnu.

Áfram íA!

Til baka