“Erum staðráðnir í að mæta grimmir til leiks gegn Selfossi” segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA

18.07 2014

Nú er Íslandsmótið í 1. deild karla hálfnað og situr Skagaliðið í 2. sæti deildarinnar með 21 stig. Skagaliðið fór rólega af stað í mótinu og var með þrjú stig eftir þrjár umferðir en í kjölfarið kom virkilega góður kafli þar sem fimm leikir unnust í röð og tylltu þeir gulklæddu sér um tíma á topp deildarinnar.

Í 9. umferð deildarinnar þurfti liðið hinsvegar að sætta sig við svekkjandi tap á heimavelli gegn liði KV en fylgdi því síðan eftir með flottum 1-3 útisigri á liði Hauka. Fyrri umferð deildarinnar lauk síðan nú á dögunum með heimaleik gegn sterku liði KA og tapaðist sá leikur 2-4.

Uppskeran er því eins og áður sagði 21 stig af 11 umferðum loknum og er liðið í fínum málum í 2 sæti deildarinnar. Það hefur klárlega sýnt sig að enginn leikur er auðveldur í þessari deild og virðist hugarfar leikmanna í upphafi hvers leiks skipta miklu máli.

Við heyrðum í þjálfara liðsins, Gunnlaugi Jónssyni af þessu tilefni og fengum hann aðeins til þess að fara yfir gang mála með okkur.

Skagaliðið mátti sætta sig við 2-4 tap í síðustu umferð gegn spræku liði KA manna. Hvernig fannst þér sá leikur leikinn af okkar hálfu?
„Ég var ekki sáttur við leikinn, við mættum gríðarlega ákveðnu liði sem seldi sig dýrt gegn okkur og því miður tók það okkur allt of langan tíma að ógna þeim að einhverju marki. Við áttum í erfiðleikum að skapa tækifæri og svo gefum við þeim ódýr mörk.  Uppspilið gekk oft á tíðum ágætlega í fyrri hálfleik en það vantaði meiri gæði að klára sóknirnar. Við gerðum þó harða atlögu að þeim með innkomu Eggerts og ég hafði virkilega á tilfinningunni að við myndum jafna leikinn, Jón Vilhelm gerir frábært aukaspyrnu mark og við fáum tækifæri að jafna og fjölgum í sókninni en fjórða mark þeirra í blálokin lokar leiknum.“

Niðurstaðan úr þessum fyrstu ellefu umferðum deildarinnar eru 21 stig, sjö sigrar og fjögur töp þar af þrjú þeirra á heimavelli. Skagaliðið hefur staðið sig vel á útivelli og unnið fjóra af fimmu útileikjum sínum en hinsvegar tapað þremur af sex heimaleikjum sínum. Er það eitthvað sem veldur þér áhyggjum, þ.e stigasöfnun liðsins á Norðurálsvellinum?
„Við ræddum þetta núna síðdeigis á æfingu í vikunni og það er enginn sáttur með uppskeru heimaleikjanna. Það er ljóst að öll lið koma extra gíruð á okkar heimavöll og við verðum hreinlega mæta andstæðingum af meiri ákefð í seinni umferðinni og gera völlinn okkar að vígi þar sem enginn fær neitt gefins. Fyrri umferðin hefur verið kaflaskipt og eftir aðeins 3 stig í fyrstu þrem leikjunum náum við fínum dampi og vinnum fimm leiki í röð -  höldum hreinu í fjórum þeirra og vinnum Leikni svo 2-1 en því miður gerum við okkur seka um værukærð þegar við komum í KV leikinn.   Eftir að hafa unnið karakter sigur gegn Haukum er slæmt að fylgja því ekki eftir gegn KA. Mótið er mjög jafnt og við getum dregið þann lærdóm að við þurfum að gíra okkur upp í hvern einasta leik. Það eru óvænt úrslit í hverri umferð en Leiknir hefur sýnt mestan stöðugleika og Tindastóll á í mesta baslinu með að ná sigrum, en það er hálft mót framundan 11 leikir og nóg eftir að gerast.“

Hvað hefurðu verið ánægðastur með í leik liðsins fyrri hluta móts og hvað telurðu að við þurfum helst að bæta í okkar leik fyrir seinni umferðina?
„Ég er gríðarlega ánægður hvernig liðið kom tilbaka eftir þrjá ósigra í röð, 2 í deild og bikarleikurinn gegn Gríndavík, við náðum upp krafti þar sem hver einasti leikmaður vann fyrir hvern annan og menn lögðu mikið á sig til að landa þessum sigrum.  Við þurfum að ná þessum liðsanda að nýju. Við höfum sýnt glimrandi sóknarleik oft á tíðum og skorað flest mörk í deildinni ásamt KA og það býr mikið í þessum hóp.  Það er enginn ástæða til að örvænta - við höfum brugðist vel við áföllum og nú er það okkar að koma til baka á Selfossi á föstudaginn.“


Nú var leikmannaglugginn að opnast þann 15 júlí síðastliðinn. Er búist við einhverjum breytingum á hópi Skagaliðsins. Ætla menn sér að styrkja liðið eitthvað í glugganum og er búist við að einhverjir leikmenn að fara annað?
„Við erum að skoða okkar leikmannamálin en ekkert er ákveðið í þeim efnum. Það er ljóst að Einar Logi fer til Bandaríkjana í skóla í ágúst og mál Andra eru ennþá óleyst þ.e. hvort hann fer til náms í Bandaríkjunum. Við erum með breiðan hóp og við eigum menn inni sem hafa minna verið að spila.“ 


Framundan er útileikur gegn liði Selfyssinga á föstudaginn kemur. Hvernig leggst sú viðurreign í þig?
„Hún leggst vel í mig, við erum staðráðnir að mæta grimmir til leiks.  Það er frábært að spila á Selfossi enda völlur þeirra góður og rigning í kortunum sem menn ættu að vera vanir en það er jákvætt að fá leik svo stuttu eftir KA leikinn.“ sagði Gunnlaugur Jónsson í samtali við vefsíðu KFÍA


Við hvetjum að lokum alla stuðningsmenn til þess að fjölmenna á leikinn í kvöld gegn Selfossi en hann hefst kl. 19.15.

 


Mynd fengin hjá Ingunni Hallgrímsdóttur hjá fotbolta.net

Til baka