Meistaraflokkur ÍA (fyrr og nú) verða í Akraneshöllinni á morgun

11.11 2016

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að Árgangamót ÍA verður haldið í Akraneshöllinni á morgun, laugardaginn 12. nóvember. Þetta er í sjötta sinn sem mótið er haldið og það hefur farið vaxandi ár frá ári.  Nú taka þátt 19 lið í karlaflokki og 6 lið í kvennaflokki. Það er óhætt að segja að mótið sameini kynslóðirnar í knattspyrnusögunni á Skaganum en eftir því sem næst verður komist er a.m.k. 32 ára aldursmunur á yngsta og elsta þátttakanda í mótinu. Mótið hefst kl. 13:00 með liðsmyndatöku en fyrstu leikir kl. 13:30.

Við hvetjum alla Skagamenn til þess að kíkja í Höllina á morgun, það ættu allir að geta fundið sér lið til að styðja. Um kvöldið verður svo lokahóf, Rejúníjon, í sal íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum. Eins og nafnið gefur til kynna eru allir velkomnir á þá frábæru dagskrá sem verður þar í boði, matur frá Galito, flott skemmtiatriði og einstakt tækifæri til þess að hitta gamla vini og kunningja sem margir hverjir hafa komið langt að af þessu tímabili.  Miðar eru til sölu í dag, föstudag, í Versluninni Nínu og á skrifstofu félagsins á Jaðarsbökkum og einnig verða þeir til sölu í sjoppunni í Höllinni á morgun - ásamt ýmsu góðgæti. Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér.

 

En þetta er alls ekki eini boltinn sem er í boði hér á Skaganum á morgun. Kl. 10:30 mun meistaraflokkur karla taka á móti HK í fyrsta æfingaleik nýs tímabils. Það ætti að vera ávísun á fínustu skemmtun því viðureignir liðanna hafa verið markaleikir og það þarf að fara allt aftur til 2009 til þess að finna markalausan leik þeirra á milli. Það eru spennandi tímar framundan hér á Skaganum og margir ungir leikmenn eru að fá sín fyrstu tækifæri í meistaraflokki en þjálfari liðsins, Gunnlaugur Jónsson, hafði þetta að segja fyrir leikinn: "Við höfum æft núna í 2 vikur á mjög ungu liði - drengir fæddir 1997 og yngri. Og við munum spila okkar fyrsta leik gegn HK á því liði, sem verður spennandi enda margir strákar að fá sína fyrstu leiki með meistaraflokki.  Því miður söknum í það minnsta fimm yngri leikmanna sem eru forfallaðir, Arnór Sig og Stefán Teitur eru á reynslu í Svíþjóð, Guðfinnur og Hilmar Halldórs eru á U19 ára landsliðsæfingum og Guðmundur Sigurbjörns er erlendis þessa helgi en fyrir vikið fá aðrir leikmenn sénsinn.  Þetta verður frábær byrjun á stórum knattspyrnudegi í bænum."

 

Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að koma í Höllina, styðja okkar stráka og kynnast þessum framtíðarleikmönnum í leiðinni.

 

Áfram ÍA!

Til baka