Mfl. kvenna heimsækir Fjarðarbyggð

28.08 2015

Nú eru stelpurnar okkar í meistaraflokknum við það að leggja af stað í með þeim lengstu keppnisferðalögum sem hægt er að komast í hér innanlands, en þær eiga leik við Fjarðarbyggð á Norðfjarðarvelli  á morgun, laugardaginn 29. Ágúst, kl. 14:00. (Fyrir þá sem ekki vita það þá eru þetta litlir 687 km. skv. vef Vegagerðarinnar).


Leikurinn er fyrri leikurinn í átta liða úrslitum þar sem leikið er heima og heiman. Síðari leikurinn fer fram hér á Norðurálsvelli þriðjudaginn 1. september kl. 17:30.


Eins og flestum ætti að vera kunnugt enduðu okkar stelpur í 2. Sæti A-riðils með 19 stig eftir 5 sigra, 4 jafntefli og 1 tap. Skoruðu 30 mörk en fengu á sig 3. Fjarðarbyggðarstúlkur höfnuðu í 2. Sæti C riðils með 8 sigra og 4 töp, skoruðu 22 mörk í þessum 12 leikjum en fengu á sig 14. Liðin mættust síðast í 1. Deildinni 2012 en þá tefldi Fjarðarbyggð fram sameiginlegu liði með Leikni. Þá unnu bæði liðin heimaleikinn sinn.


Við vonum að stelpurnar okkar nái hagstæðum úrslitum fyrir austan og verði komnar með annan fótinn í undanúrslitin fyrir heimaleikinn á þriðjudaginn. Það lið sem fer með sigur af hólmi mun mæta sigurvegaranum úr viðureign Augnabliks og Grindavíkur um sæti í Pepsideild kvenna næsta sumar.


Við verðum með stelpunum í anda og mælum að sjálfsögðu með því að Skagamenn sem kunna að vera staddir fyrir austan skelli sér á völlinn og styðji stelpurnar!

Til baka