Mikilvægur sigur á Eyjamönnum í kvöld

12.07 2015

Skagamenn mættu liði Eyjamanna í kvöld á Norðurálsvellinum og endaði leikurinn með mikilvægum heimasigri 3-1. ÍBV hóf leikinn af krafti og komst yfir á 11. mínútu eftir vandræðagang í vörninni. Okkar menn komust svo hægt og rólega inn í leikinn og sköpuðu sér nokkur ágæt færi. Það var svo á 39. mínútu sem ÍA jafnar metin þegar Arnar Már Guðjónsson skorar með þrumufleyg af 25 metra færi, stórkostlegt mark sem kom okkur inn í leikinn aftur. Var staðan því 1-1 í hálfleik. 

 

Það voru svo tæpar tvær mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Skagamenn komast yfir í leiknum. Þá á Ásgeir Marteinsson góða fyrirgjöf inn í vítateig þar sem Arsenij Buinickij skorar með skalla. Eftir þetta fengu bæði lið nokkur tækifæri og í eitt skiptið bjargaði Árni Snær Ólafsson frábærlega með úthlaupi þegar sóknarmaður ÍBV var einn í vítateignum. Á 75. mínútu kláraði ÍA svo leikinn þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson átti frábæra fyrirgjöf inn á fjærstöngina þar sem Hallur Flosason kom aðvífandi og skallaði boltann í fjærhornið, 3-1. Undir lokin fengu Jón Vilhelm Ákason og Ásgeir Marteinsson svo góð færi til að skora fleiri mörk en nýttu ekki möguleikana.
 

Skagamenn unnu því 3-1 sigur í leik þar sem bæði lið fengu tækifæri til þess að skora fleiri mörk en okkar menn höfðu gæðin til að klára leikinn. Það ber að hrósa Skagaliðinu fyrir leikinn í kvöld. Spilamennskan var heilt yfir mjög góð og í síðustu leikjum hefur frammistaðan verið til fyrirmyndar.
 

Framundan er mikilvægur leikur gegn Íslandsmeisturunum Stjörnunnar á Samsungvellinum laugardaginn 18. júlí kl. 16:00. Hvetjum við Skagamenn til að fjölmenna á þann leik. 

Til baka