Naumt tap Skagastúlkna gegn Þór/KA

09.06 2014

Stelpurnar okkar mættu liði Þór/KA fyrr í dag í blíðskaparveðri á Skaganum.  Leikurinn var ekki nema 7. mínútna gamall þegar Þór/KA komst yfir með marki frá Katrínu Ásbjörnsdóttur eftir góða stungusendingu inn fyrir vörnina. 

 

Okkar stelpur voru þó ekki lengi að jafna metin því að á 14. mín jafnaði Ingunn Dögg Eiríksdóttir metin með góðu skoti utan af kanti.   Þór/KA tók þá frumkvæðið að nýju og fékk vægast sagt mjög ódýra vítaspyrnu á 35. mín þar sem einn leikmaður ÍA átti að hafa handleikið knöttinn.  Kayla June Grimsley skoraði úr vítaspyrnunni af öryggi og aðeins 3. mín síðar kom stungusending inn fyrir vörn ÍA og Freydís Anna Jónsdóttir skoraði þriðja mark Þórs/KA úr þröngu færi.  

 

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðunum en á 76. mín nær Ingunn Dögg að skora sitt annað mark í leiknum eftir góðan undirbúning Guðrúnar Karítasar og staðan orðin 2:3.  Skagastúlkur reyndu hvað þær gátu til að jafna metin en náðu ekki að skapa sér afgerandi færi á lokakafla leiksins.  Enn eitt svekkjandi tapið staðreynd en okkar stelpur hafa þó sýnt í fyrstu umferðunum að þær geta á góðum degi staðið í hvaða liði sem er og það styttist í fyrstu stigin.

 

Næsti leikur er þriðjudaginn 24. júní og er  gríðarlega mikilvægur, en þá heimsækja stelpurnar Aftureldingu í Mosfellsbæ.

 

Lið ÍA í dag:  Caitlin, Eyrún, Birta, Laken, Ingunn, Gréta, Madison, Bryndís, Maren, Margaret og Guðrún K.  Á 74. mín komu Unnur og Alexandra Björk inná fyrir Bryndísi og Maren.

Til baka