Öruggur sigur gegn Tindastól í kvöld

19.08 2014

Skagamenn mættu í kvöld liði Tindastóls í 1. deild karla og lyktaði leiknum með öruggum 5-2 sigri okkar drengja. Leikurinn fór fram við fínar aðstæður á Norðurálsvellinum en byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað: Árni Snær, Teitur Péturs, Ármann Smári, Arnór Snær, Darren Lough - Arnar Már Guðjóns, Hallur Flosa, Andri Júl, Andri Adolphs - Hjörtur Hjartar og Garðar Gunnlaugs.

 

Skagaliðið var miklu mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og náði góðri pressu á mark gestanna. Upp byggðust fínar sóknir og fengu heimamenn fín færi á markteig sem ekki nýttust. Á 28 mín leiksins fengu Skagamenn síðan dæmda vítaspyrnu sem markmaður gestanna varði vel frá Garðari Gunnlaugssyni. Skagamenn héldu áfram að sækja og á 35 mín leiksins tókst þeim gulklæddu loks að brjóta ísinn. Garðar Gunnlaugsson átti þá fast skot í varnarmann gestanna en þaðan hrökk boltinn til Halls Flosasonar sem tók boltann glæsilega á lofti og hamraði hann í netið af 25 metra færi. Staðan orðin 1-0 fyrir Skagann.

 

Skagaliðið náði að bæta við öðru marki fyrir hálfleik en eftir stórskotahríð að marki gestanna tókst Garðari Gunnlaugssyni að koma boltanum í netið af stuttu færi og staðan orðin 2-0 en þar við sat í hálfleik.

 

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og voru komnir í 3-0 eftir 50 mín leik en þá skoraði Andri Adolphsson gott mark af markteig. Fjórða markið kom síðan á 52 mín leiksins en það skoraði Garðar Gunnlaugsson með fínu vinstri fótar skoti sem hafnaði í stönginni og inn. Skagaliðið hélt áfram að sækja og á 65 mín leiksins skoraði Andri Adolphsson fimmta mark Skagamanna með fínni afgreiðslu úr þröngu færi á fjærstöng.

 

Skagaliðið slakaði talsvert á klónni eftir þetta og Stólarnir náðu að minnka muninn með tveimur mörkum fyrir leikslok. Sigur Skagamanna var þó aldrei í hættu og sýndi liðið flottan leik í kvöld þar sem urmull marktækifæra skapaðist og hefði liðið átt að setja fleiri mörk í leiknum.

 

Niðurstaðan hinsvegar öruggur 5-2 sigur á liði Tindastóls en með sigrinum styrki Skagaliðið stöðu sína í 2 sæti deildarinnar og hefur eftir leiki kvöldsins fimm stiga forskot á þriðja sætið og vantar sjö stig í topplið Leikins. Næsti leikur Skagamanna verður einmitt gegn toppliði Leiknis laugardaginn næstkomandi kl 14.00.

Til baka