Pepsideild karla: ÍA-Fjölnir á Norðurálsvellinum

11.05 2016

Á morgun, fimmtudaginn 12. maí, kl. 19:15 hefst alvaran hér á Norðurálsvellinum. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að byrjun okkar í mótinu hefur verið lakari en vonir stóðu til en nú tekur við fyrsti heimaleikurinn, strákarnir hungraðir í sigur og stuðningsmennirnir að sjálfsögðu líka.

 

Gestir okkar að þessu sinni eru Fjölnismenn. Fyrri viðureignir liðanna gefa nokkra von um að við fáum að sjá mörk annað kvöld, en aldrei hefur verið skráður markalaus leikur á milli þessara félaga, að meðaltali hafa verið skoruð 4,3 mörk í leikjunum milli þessara liða og mörgum er sjálfsagt enn í fersku minni 4-4 jafntefli hér á Norðurálsvelli í ágúst í fyrra.

 

Í sumar munum við halda áfram því góða samstarfi sem við höfum haft við listamenn bæjarins og verðlauna mann leiksins með listaverki. Að þessu sinni er það Áslaug Benediktsdóttir sem gefur þessa fallegu mynd.  Verk Áslaugar eru til sýnis og sölu hjá Samsteypunni á Mánabraut 30.

Til baka