Pepsideild karla: ÍA - Fylkir á Norðurálsvelli

20.05 2016

Á morgun, laugardaginn 21. maí, klukkan 16:00 tekur meistaraflokkur karla hjá ÍA á móti Fylkismönnum hér á Norðurálsvellinum. Bæði lið hafa farið brösuglega af stað í fyrstu fjórum leikjunum, Skagamenn hafa af einum sigri að státa, eru með þrjú stig í deildinni og markatöluna 2-9 á meðan Fylkismenn eru enn án stiga eftir að hafa tapað öllum fjórum leikjunum og hafa markatöluna 1-9. 

 

Þegar innbyrðisviðureignir liðanna eru skoðaðar hafa úrslitin sveiflast á ýmsa vegu og ekki hefur verið hægt að segja að heimavöllurinn virðist endilega hafa gefið neitt forskot þegar þessi lið eiga í hlut. Á síðustu 10 árum hafa þau mæst 14 sinnum í öllum keppnum, þar hefur ÍA unnið 3 sigra, Fylkir 5 sinnum og 6 sinnum hafa leikirnir endað með jafntefli. Síðustu tveir leikir liðanna hafa m.a. endað með 0-0 jafntefli. Við höfum enga trú á að það verði niðurstaðan á morgun. Bæði lið hungrar í að bæta stigum á töfluna. Strákarnir okkar þurfa því á stuðningi ykkar allra að halda, mætum öll á völlinn og hjálpum til við að landa stigunum hér heima.

 

Eins og venja hefur skapast fyrir höfum við gengið listamann í lið með okkur til þess að verðlauna mann leiksins. Að þessu sinni er um að ræða listakonuna TInnu Rós. Tinna Rós er fædd á Akranesi árið 1982 og hefur frá ungum aldri verið áhugasöm um alls konar myndlist og tréföndur. Hún fór í fornámsdeild Myndlistaskólans á Akureyri og hefur lokið fyrsta árinu í fagurlistadeild en stefnir í framhaldinu á mastersnám. Verk hennar eru til sölu í Gallerí Urmul á Akranesi en einnig heldur hún úti verslun á Kisanum (http://www.kisinn.is/tinnaroyal). Jafnframt er hún með síðu á facebook undir nafninu Tinna Royal. VIð þökkum Tinnu kærlega fyrir hennar framlag.

 

Áfram ÍA!

Til baka