Pepsideild karla: KR kemur í heimsókn á morgun

14.09 2016

Á morgun, fimmtudaginn 15. september, verður leikin heil umferð í Pepsideild karla. ÍA tekur á móti KR á Norðurálsvellinum, en þar sem dagarnir eru heldur að styttast fer leikurinn fram kl. 17:00. Það þýðir því ekkert að vera of lengi í vinnunni á morgun.

 

Við þekkjum það öll að leikir þessara liða eru alltaf stórleikir, alveg óháð stöðu þeirra í deildinni, sagan sér til þess. Á vef KSÍ eru skráðir 134 leikir milli félaganna í öllum keppnum, Skagamenn hafa unnið 55, tapað 52 og liðin hafa 27 sinnum gert jafntefli. Markatalan er 213-211 Skagamönnum í vil, takið eftir að það eru meira en 3 mörk að meðaltali í leik... þetta verður eitthvað!  Skagamenn sitja fyrir leikinn í 5. sæti deildarinnar með 28 stig en KR tveimur sætum og 2 stigum neðar. Það eru fjórir leikir eftir í deildinni og fá stig sem skilja á milli liða og því til mikils að vinna.

 

Aðalstyrktaraðili leiksins er Bílaumboðið Askja - KIA á Íslandi sem hefur stutt við bakið á félaginu í áraraðir.  Í tilefni af leiknum verður undirritaður nýr samningur milli KFÍA og Öskju.  Við þökkum bílaumboðinu Öskju og þá sérstaklega Jóni Trausta Ólafssyni framkvæmdastjóra Öskju fyrir gott samstarf.

 

Það er einnig skemmtilegt að segja frá því að sérstakir heiðursgestir á leiknum verða bikarmeistaralið ÍA 1986 og Íslands- og bikarmeistaraliðið 1996, en margir leikmenn hafa þegar boðað komu sína.

 

Maður leiksins verður valinn og fær að þessu sinni málverk eftir Sólveigu Sigurðardóttur (Sissu) frá Akranesi. Hún hefur verið að mála í 10 ár og meðal annars sótt námskeið hjá Hrönn Eggerts og Baska. Það má kynna sér hennar verk á facebook: https://www.facebook.com/artsissa-1509659269342531/?fref=ts eða með því að hafa samband við hana sjálfa í s. 862-0761.

 

Við látum hér til upphitunar fylgja myndband af mörkunum úr sigurleik Skagamanna í Vesturbænum fyrr í sumar: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=CLP46631

 

Við hvetjum alla til að mæta og skapa stemmingu á Norðurálsvellinum á morgun, það er frábær leið til að klára daginn að horfa á fótbolta, hvetja sitt lið og næla sér í sjóðheitan borgara af grillinu.

Til baka