Pepsideild kvenna: Grátlegt tap fyrir KR

30.09 2016

Meistaraflokkur kvenna hjá ÍA tapaði í dag fyrir KR 2-3 á Norðurálsvellinum í síðastu umferð Pepsideildarinnar 2016.

 

Fyrir leikinn sátu liðin í neðstu tveimur sætum Pepsideildarinnar, KR átti möguleika á að bjarga sér frá falli á meðan Skagastelpur höfðu aðeins stoltið til að spila fyrir. Það var hins vegar ekki að sjá í upphafi leiks en Skagastelpur byrjuðu leikinn mun betur og Cathrine Dyngvold skoraði svo fyrsta mark leiksins fyrir ÍA á 12. mínútu með góðu skoti.

 

KR ógnaði lítið og heimaliðið var líklegra en hitt til þess að bæta við. Því náði ÍA á 41. mínútu þegar Rachel Owens átti skot sem fór undir markvörð KR og í markið. 

 

Eitthvað hefur virkað vel í hálfleiksræðu þjálfara KR því þær komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik. Þær skoruðu sitt fyrsta mark á 54. mínútu beint úr aukaspyrnu en þar var klárlega brotið á markverði ÍA en dómarinn dæmdi ekkert. Þar með var endurkoman hafin og þær bættu tveimur mörkum við, á 73. og 77. mínútu. Skagastelpur áttu einnig nokkrar efnilegar sóknir en tókst ekki að skora fleiri mörk.

 

Með sigrinum lyftu KR-stúlkur sér upp í 7. sæti deildarinnar og forðuðu sér frá falli.

 

Skagastúlkur ljúka veru sinni í Pepsideildinni að þessu sinni í neðsta sætinu með 8 stig. Það er samt sem áður bæting á árangri síðustu tímabila sem ÍA hefur leikið í efstu deild kvenna, raunar þarf að fara alveg aftur til ársins 2000 til þess að finna Skagalið með fleiri stig. Við erum með ungt lið og stelpurnar eru reynslunni ríkari eftir sumarið.

 

Þær hafa lagt sig allar fram og veitt öllum liðum verðuga keppni, mun meiri en staðan á töflunni gefur til kynna. Sem dæmi má taka að sex leikir töpuðust með einu marki. Það verður áhugavert að sjá stelpurnar taka slaginn í nýrri 1. deild næsta sumar, en fyrirkomulagi deildarinnar hefur verið breytt frá því okkar stelpur léku þar síðast.

 

Við eigum marga unga og efnilega leikmenn hér á Skaganum, bæði kvenna- og karlamegin, og við höldum áfram að vinna öll saman að því marki að okkar iðkendur fái sem flestir tækifæri til þess að keppa í fremstu röð – og það í gulu treyjunni sem hefur fylgt þeim frá því þau byrjuðu fyrst að sparka í bolta.

 

Áfram ÍA

Til baka