Pepsideild kvenna: ÍA-FH á Norðurálsvelli

13.05 2016

Eftir mikilvægan fyrsta sigur hjá strákunum okkar í gærkvöldi treystum við á alla sanna Skagamenn að fylkjast á Norðurálsvöllinn á morgun, laugardag, og styðja stelpurnar okkar til sigurs á FH. Leikurinn hefst kl. 14:00.

 

Um er að ræða síðasta leikinn í fyrstu umferð Pepsideildar kvenna, en hinir leikirnir fóru fram síðastliðinn miðvikudag. Hvorki ÍA né FH hefur verið spáð neitt sérlega góðu gengi í deildinni í sumar, en liðin röðuðust í 8. og 9. sæti í spánni, þetta gæti því verið gríðarlega mikilvæg viðureign þegar upp er staðið.  FH hefur komið heldur betur út úr síðustu viðureignum liðanna, ef 10 síðustu leikir eru skoðaðir hafa Skagastelpur unnið 2, gert 2 jafntefli og tapað 6. Að meðaltali hafa verið skoruð 3,2 mörk í leik milli þessara liða.

 

Það er því ljóst að stelpurnar okkar þurfa á öllum stuðningi að halda og við skorum á sem flesta að skella sér á völlinn. Heimaleikjahópur mun að vanda bjóða upp á fríar kaffiveitingar í hálfleik og selja happdrættismiða til styrktar meistaraflokki kvenna.

 

Annað sem hefur getið sér gott orð sem fastur liður er samstarfið við listamenn á svæðinu um viðurkenningu fyrir mann leiksins. Listamaðurinn okkar að þessu sinni er Anna Leif Elídóttir. Anna Leif er menntuð frá Myndlistaskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið þrjár einkasýningar. Myndin er úr seríunni “elskar mig” frá árinu 2011. Það er skemmtilegt að segja frá því að Anna Leif verður með einkasýninguna “Ömmurnar” í haust. Við þökkum Önnu Leif kærlega fyrir.

 

Áfram ÍA!

Til baka