Pepsideild kvenna: ÍA - ÍBV á Norðurálsvelli

30.08 2016

Á morgun, miðvikudaginn 31. ágúst, taka stelpurnar okkar í meistaraflokki á móti Eyjastúlkum í Pepsideildinni. Leikurinn hefst kl. 17:00 hér á Norðurálsvellinum. Mannvit er aðalstyrktaraðili leiksins.

 

Fyrir leikinn situr ÍBV í 5. sæti deildarinnar með 21 stig en Skagastúlkur í 9. sætinu með 8 stig og í harðri baráttu við að komast úr fallsæti. Það verður að öllum líkindum á brattann að sækja þar sem síðasti sigur á ÍBV náðist fyrir 8 árum síðan - en, er ekki bara kominn tími á næsta? Selfoss og KR, liðin sitthvoru megin við okkur í töflunni eigast einnig við á morgun og það eru því ýmsir möguleikar í stöðunni.

 

Sú sem valin verður maður leiksins á morgun fær glæsilegt málverk eftir Aldísi Petru Sigurðardóttir. Listakonan er fædd og uppalin hér á Akranesi, æfði lengi fótbolta með ÍA og á m.a.að baki 15 leiki með meistaraflokki kvenna. Aldís Petra útskrifaðist af myndlistabraut Fjölbrautaskólans Breiðholti og fór í framhaldinu í nám á myndlistabraut Listaháskóla Íslands. Eftir eitt ár í því námi ákvað hún að söðla um og fara í vöruhönnun.

 

Á síðasta leik hjá stelpunum var frábær mæting og allir vita að góð stemming getur virkilega lyft liðinu. Fjölmennum á völlinn og styðjum stelpurnar okkar í baráttunni.

 

Áfram ÍA

Til baka