Pepsideild kvenna: ÍA - Valur á Norðurálsvelli (aðgangur ókeypis)

08.07 2016

Í kvöld, kl. 18:00, taka stelpurnar okkar í meistaraflokki kvenna á móti Valsstúlkum í Pepsideildinni. Skagastúlkur hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum liðanna hingað til enda Valur eitt af stórliðum íslenskrar kvennaknattspyrnu, hafa unnið efstu deild 10 sinnum og hafnað 11 sinnum í 2. sæti frá því að keppni meðan bestu liða kvenna hófst 1972. Þrátt fyrir að gengi þeirra hafi dalað nokkuð á síðustu árum er alveg ljóst að okkar stelpna bíður erfitt verkefni og allur stuðningur er mikilvægur.

 

Að venju höfum við fengið listamann til liðs við okkur við að verðlauna mann leiksins. Að þessu sinni er það efnileg ung listakona héðan af Skaganum, Brynja María Brynjarsdóttir, sem er gefandi verksins. Það verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni og hægt er að nálgast verk hennar á facebook eða í síma 774-5476. 

 

Það er frítt á leikinn og heimaleikjahópurinn býður upp á kaffiveitingar í hálfleik og á meðan grillum við pylsur fyrir krakkana við vallarsjoppuna. Einnig verða seldir happdrættismiðar í hálfleik, til styrktar meistaraflokki kvennar, miðinn kostar 500 kr.

 

Við hvetjum alla, og þá sérstaklega Skagamenn, til þess að skella sér á völlinn og hvetja stelpurnar okkar til dáða.

 

Áfram ÍA

Til baka