Úrslitaleikur 1. deildar á Norðurálsvelli

11.09 2015

Á morgun, laugardaginn 12. september, kl. 13:00 mun fara fram úrslitaleikur 1. deildar kvenna en þar eigast við ÍA og FH sem bæði tryggðu sér sæti í Pepsideildinni næsta sumar. Þetta er jafnframt síðasti heimaleikur sumarsins hjá stelpunum okkar og við hvetjum alla til þess að koma, hvetja þær til dáða og fagna með þeim endurkomunni í deild þeirra bestu.  ÍA hefur ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum við FH síðustu árin en nú er kominn tími til að breyta því.

 

Olís er aðalstyrktaraðili leiksins og býður öllum frítt á völlinn. Olís stendur einnig fyrir "Olís-degi" á Skaganum á sunnudaginn en þá munu 5 kr. af hverjum keyptum bensínlítra hjá Olís Nesti á Akranesi renna til Knattspyrnufélags ÍA.

 

Að venju mun hinn frábæri (og ný-verðlaunaði) heimaleikjahópur Knattspyrnufélags ÍA bjóða upp á kaffi og meðlæti í hálfleik þar sem einnig verða til sölu happdrættismiðar á 500 kr. 

 

Maður leiksins mun að þessu sinni hljóta gjöf frá Dýrfinnu "okkar" Torfadóttur. Dýrfinna er sannarlega stuðningsmaður af lífi og sál og hefur lagt sig alla fram um að efla félagið og þá ekki síst kvennaknattspyrnuna. En Dýrfinna er líka frábær listakona og hér má sjá sýnishorn af verkum hennar: https://www.facebook.com/skartdyrfinnu?fref=ts

 

Miðað við spána ætti að viðra vel til knattspyrnu, hvort sem um leikmenn eða stuðningsmenn er að ræða. Hægur vindur og hitastig í tveggja stafa tölu. 

 

Allir á völlinn!

Til baka