Sæti í Pepsi-deildinni að ári tryggt

20.09 2015

Skagamenn heimsóttu Keflavík á Nettóvöllinn í dag í leik sem endaði með frábærum 0-4 sigri. ÍA hóf leikinn af krafti og greinilegt var að menn ætluðu að leggja allt í sölurnar. Erfiðar aðstæður voru í leiknum með slagveðursrigningu og hvassviðri en okkar menn skiluðu samt marki strax á 15. mínútu þegar Hallur Flosason lagði boltann út á Garðar Gunnlaugsson sem hamraði boltann í netið. Skagamenn voru mun beittari í sínum aðgerðum og það skilaði öðru marki á 25. mínútu þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson skoraði með frábæru skoti fyrir utan vítateiginn. Skömmu síðar kom þriðja mark leiksins þegar Ólafur Valur Valdimarsson átti sendingu inn í vítateiginn og þar kom Hallur Flosason og skoraði með góðum skalla. Staðan virkilega góð í hálfleik 0-3 og Keflvíkingar náðu aldrei að ógna marki ÍA. 

 

Í seinni hálfleik ætluðu Keflvíkingar að komast betur í takt við leikinn en það var stöðvað strax á 50. mínútu þegar Ásgeir Marteinsson skallaði boltann innfyrir vörn Keflvíkinga á Garðar Gunnlaugsson sem skoraði af öryggi. Eftir þetta fóru Skagamenn meira að draga sig aðeins aftar á völlinn og halda góðri stöðu. Keflavík fékk nokkur hálffæri en náði aldrei að ógna marki ÍA að ráði. Okkar menn ógnuðu lítið eftir því sem leið á leikinn heldur sigldu öruggum 0-4 sigri heim.


Leikurinn endaði því með frábærum 0-4 sigri okkar manna og sæti í Pepsi-deildinni að ári tryggt. Sóknarleikurinn var frábær, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem Keflvíkingar áttu aldrei möguleika. Vörnin heldur áfram að vera traust og þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem liðið heldur hreinu og er það undirstaða þess að við erum búin að tryggja veru okkar í deildinni. Liðið stóð sig mjög vel í dag og má einnig þakka stuðningsmönnum okkar sem voru fjölmennir í stúkunni. Næsti leikur er kl. 14 á laugardaginn gegn Val og hvetjum við fólk til að mæta og styðja strákana okkar í að hífa sig ofar í töflunni, nú þegar markmiðinu er náð.

Til baka