Sætur sigur á Leiknir R.

23.08 2014

Skagamenn voru rétt í þessu að vinna gríðarlega mikilvægan og senn sætan sigur á toppliði Leiknis R. í 1. deild karla. Leiknum lyktaði með 0-1 sigri okkar drengja en markið kom í uppbótaríma.

Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað í leiknum: Árni Snær, Teitur Péturs, Arnór Snær, Ármann Smári, Darren Lough - Ingimar Elí, Hallur Flosa, Arnar Már, Jón Vilhelm, Eggert Kári - Garðar Gunnlaugs.

Leikurinn fór rólega af stað og lítið var um opin færi í fyrri hálfleiknum. Skagaliðið fékk þó nokkrar hornspyrnur sem ekki nýttust og Leiknisliðið átti tvær ágætis skottilraunir sem Árni Snær átti ekki erfiðleikum með að verja. Þar við sat í hálfleik og staðan markalaus.

Skagaliðið hresstist í seinni hálfleiknum og átti Eggert Kári fína marktilraun strax á upphafsekúndum hálfleiksins sem endaði í hliðarnetinu. Um stundarfjórðungi síðar fékk Garðar Gunnlaugsson gott færi á markteig en skot hans fór rétt yfir markið. Liðin skiptust á að sækja það sem eftir lifði leiks og björguðu bæði lið til að mynda á marklínu eftir hornspyrnur. Það var semsagt mikið jafnræði með liðunum en Gunnlaugur Jónsson þjálfari Skagamanna gerði þrjár breytingar á sínu liði fyrir leikslok og inn á komu þeir Óli Valur, Andri Adolphs og Hjörtur J. Hjartarson.

Hjörtur var eki lengi að láta að sér kveðu og átti hann fína marktilraun á 85 mín leiksins sem var vel varin af Eyjólfi Tómassyni í marki heimamanna. Í uppbótartíma sóttu Skagamenn síðan að marki heimamanna og fékk Hjörtur boltann á fjærstöng þar sem varnarmaður Leiknis braut á Hirti og Vilhjálmur Alvar dómari leiksins dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Taugar fjölmargra stuðningsmanna Skagaliðsins er mættir voru í Breiðholtið voru þandar þegar Garðar Gunnlaugsson steig á punktinn en Garðar skoraði örugglega úr spyrnunni og leikmenn og stuðningsmenn ÍA trylltust af fögnuði.

Þar við sat og niðurstaðan frábær 0-1 sigur Skagamanna á toppliði Leikins i 1. deild karla. Skagamenn styrktu enn stöðu sína í 2. sæti deildarinnar með sigrinum og söxuðu forskot Leiknis manna niður í fjögur stig.

Næsti leikur Skagamanna verður næstkomandi laugardag á Norðurálsvellinum gegn liði BÍ/Bolungarvíkur.

Til baka