Skagamenn áfram í Lengjubikarnum

16.04 2015

Skagamenn mættu Fjölnis-mönnum fyrr í kvöld í 8 liða úrslitum Lengjubikar karla. Leikurinn fór fram í Akraneshöllinni og lyktaði leiknum með öruggum 5-1 sigri okkar manna.
Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað: Árni Snær – Þórður Þ. Þórðar, Ármann Smári, Arnór Snær, Darren Lough – Marko Andjelkovic, Albert Hafsteins, Hallur Flosa, Jón Vilhelm - Arsenij Buinickij og Garðar Gunnlaugs.

 

Skagamenn byrjuðu leikinn vel og voru búnir að ná forystunni eftir 8 mín leik en þar var á ferðinni Arsenij Buinickij með skoti yfir markmanninn í liði gestanna. Um stundarfjórðung síðar bættu Skagamenn við marki en þar var á ferðinni Garðar Gunnlaugsson eftir fínan undirbúning frá Alberti Hafsteinssyni. Stuttu fyrir hálfleik bætti Garðar Gunnlaugs svo við þriðja marki Skagamanna með frábæru vinstri fótar skoti eftir fína stungusendingu frá Arsenij. Þar við sat í hálfleik og staðan 3-0 fyrir Skagaliðið.

 

Í byrjun síðari hálfleiks fengu Skagamenn aukaspyrnu á hættulegum stað en spyrnuna tók Jón Vilhelm en markvörður Fjölnis varði spyrnuna meistaralega. Fyrstur á frákastið var Arsenij Buinickij og skallaði hann boltann í markið af stuttu færi og staðan þá orðin 4-0.

Gulli Jóns þjálfari ÍA gerði nokkrar breytingar á sínu liði þegar leið á leikinn og inn á komu þeir Arnar Már Guðjónsson, Ingimar Elí, Ásgeir Marteinsson og Gylfi Veigar Gylfason.
Skagamenn bættu við marki á 79 mín leiksins en þar var á ferðinni Arsenij Buinickij en þá afgreiddi hann boltann frábærlega með vippu yfir markmann gestanna. Fjölnismönnum tókst að klóra í bakkann undir lok leiksins og var það Skagamaðurinn Ragnar Leósson sem var þar að verki.

Niðurstaðan því flottur 5-1 sigur okkar drengja og sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins tryggt en þar munum við mæta annað hvort liði Fylkismanna eða KA, en liðin mætast í kvöld.

Til baka