Skagamenn gerðu 1-1 jafntefli gegn feykisterku KR-liði í æfingaleik

26.06 2014

Skagamenn mættu liði KR í æfingaleik á Norðurálsvellinum í gær sem reyndist vera hin besta æfing fyrir okkar pilta. Skagaliðið var betri aðilinn til að byrja með og fékk liðið tvö dauðafæri á fyrstu fimm mínútum leiksins. En þeir Andri Adolphs og Jonni komust einir í gegn Sindra markmanni KR og brást þeim báðum bogalistinn.

 

Þegar um stundarfjórðungur var liðinn af leiknum náðu Skagamenn forystunni þegar Einar Logi átti fastan kross fyrir markið sem miðvörður KR-inga, Ivar Furu miðvörður KR ætlaði að hreinsa en úr varð slysalegt sjálfsmark.

 

Byrjunarlið Skagamanna var annars þannig skipað í leiknum: Páll Gísli, Hákon Ingi - Gylfi Veigar – Arnór Snær - Teitur Péturs, Eggert Kári - Jonni - Einar Logi - Óli Valur, Andri Adolphs - Hjörtur Hjartar

 

Gunnlaugur Jónsson gerði nokkrar breytingar á sínu liði í leiknum en í hálfleik kom Sindri Snæfells inn á fyrir Hákon Inga, Ingimar Elí kom inn á fyrir Gylfa Veigar og tók stöðu á miðjunni á meðan að Einar Logi fór í hafsentinn.

 

Í seinni hálfleik komust KR-ingar meira inn í leikinn og náðu að jafna metin eftir að Kjartan Henry skoraði laglegt mark sem var óverjandi fyrir Pál Gísla í markinu. Liðin sóttu á víxl eftir þetta og og sást góður fótbolti í annars ágætum aðstæðum á Norðurálsvelli þó nokkuð hafi blásið á völlinn úr suðaustri.

 

Þegar á seinni hálfleikinn leið komu þeir Þórður Þ.Þórðarson og Atli Alberts inn á fyrir þá Óla Val og Eggert Kára.

 

Hjörtur Hjartarsson átti svo gott færi til að tryggja sigurinn þegar hann snéri laglega á Grétar Sigfinn miðvörð KR en skot hans rétt yfir markið.  Fleiri urðu færin ekki og sættust liðin á 1-1 jafntefli en frammistaðan hjá okkar drengjum í leiknum var mjög góð.

 

Næsti leikur Skagamanna verður gegn BÍ/Bolungarvík á laugardaginn kemur og mun hann fara fram fyrir vestan.

Til baka