Skagamenn gerðu jafntefli við Fylki í dag

21.05 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í dag við Fylki á Norðurálsvelli í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla. Fylkismenn byrjuðu af krafti og sköpuðu sér snemma ágæt færi sem þeir nýttu ekki. Skagamenn komu hægt og rólega inn í leikinn og um miðjan hálfleikinn skoraði Arnar Már Guðjónsson mark sem dæmt var af vegna rangstöðu. Skömmu síðar náðu Fylkismenn góðri sókn sem endaði með marki. Eftir það sóttu okkar menn og ætluðu sér að jafna metin og það tókst á 36. mínútu þegar Iain Williamson átti aukaspyrnu sem fór inn í vítateig. Ármann Smári Björnsson skallaði boltann til Garðars Gunnlaugssonar sem sneri sér á punktinum og skoraði með góðu skoti. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

 

Í hálfleik var strákum úr 5.fl karla afhent sigurverðlaun í faxaflóamótinu en þessir frábæru strákar gerðu sér lítið fyrir og unnu sigur í A, B, C, D og D2 liðum í mótinu. Við óskum þeim og þjálfurum þeirra, Hjálmi Dór Hjálmssyni og Kristni Guðbrandssyni, til hamingju með þennan einstaka árangur. Á meðfylgjandi mynd má sjá strákana gera sig tilbúna að taka á móti bikurum fyrir sigurinn. 

 

Seinni hálfleikur var svo frekar bragðdaufur. Bæði lið sóttu og sköpuðu sér hálffæri en lítið var um dauðafæri. Fylkismenn voru nær því að skora mark en náðu sjaldan að brjóta sterka vörn ÍA á bak aftur með Ármann Smára í fararbroddi. Miðjuþóf og stöðubarátta var í fyrirrúmi í leiknum og leikurinn endaði því með jafntefli 1-1 sem teljast ágæt úrslit miðað við gang leiksins.
 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Ármann Smári, Arnór Snær og Þórður Þorsteinn. Á miðjunni voru Albert, Iain og Arnar Már. Í sókninni voru Garðar, Eggert Kári og Ásgeir. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Steinar, Jón Vilhelm og Gylfi Veigar.
 

Næsti leikur er svo gegn KV á Norðurálsvelli miðvikudaginn 25. maí kl. 19:15 í Borgunarbikarnum. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka