Skagamenn mæta HK í toppslag í kvöld
15.08 2014Skagamenn mæta HK í enn einum toppslagnum í 1.deild í Kórnum í Kópavogi í kvöld kl. 19:15. Þetta er þriðji leikurinn í röð þar sem strákarnir mæta andstæðingi sem er að narta í hælana á okkur. Fyrst mættum við Víkingi Ó sem hefði getað komist upp fyrir okkur að stigum ef þeir hefðu unnið leikinn, leikur sem endaði með góðum 3:1 sigri okkar manna. Síðan mættu strákarnir Þrótti sem hefði getað jafnað okkur að stigum en þann leik unnum við líka 3:1. Nú er komið að HK mönnum en þeir eru í dag í 3ja sæti með 25 stig og eru 5 stigum á eftir okkur í baráttunni um Pepsideildarsæti. Það er því mikið í húfi og sigur í kvöld getur gefið okkar mönnum mjög góða stöðu fyrir lokahluta mótsins. Það er því til mikils að vinna en eins og oft áður í sumar þá má búast við tvísýnum leik. Nýliðar HK hafa komið á óvart í sumar með góðum og skipulögðum leik undir stjórn Þorvaldar Örlygssonar, fyrrum þjálfara Skagamanna. Það að liðið sé búið að ná sér í 25 stig í sumar er ekki tilviljun, liðið hefur fengið góða leikmenn til liðs við sig og má þar helst nefna Skagamanninn Andra Geir Alexandersson sem hefur spilað vel í hjarta varnarinnar.
Það má því búast við enn einum hörkuleiknum í deildinni í kvöld. Við hvetjum Skagamenn til að mæta í Kórinn og styðja okkar menn til sigurs. Áfram Skagamenn !