Skagamenn mæta KA í 1. deild karla í kvöld á Norðurálsvellinum kl. 19.15

15.07 2014

„Þetta verður virkilega spennandi viðurreign“ segir Arnar Már Guðjónsson leikmaður ÍA

 

Heil umferð fer fram í kvöld í 1. deild karla en þá mæta Skagamenn liði KA á Norðurálsvellinum og hefst leikurinn kl 19.15 en það er Verslunin Omnis sem er aðalstyrktaraðili leiksins.

 

Framundan er hörkuleikur gegn sterku KA liði sem hefur verið að fínu skriði undanfarnar vikur og unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum. Skagaliðið hefur einnig átt fínu gengi að gegna undanfarnar vikur og unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum. Skagaliðið situr í 2 sæti deildarinnar með 21 stig en KA liðið er 4 sæti deildarinnar með 16 stig.

 

Skagaliðið vann góðan 1-3 útisigur í síðustu umferð á liði Hauka þar sem Arnar Már Guðjónsson átti flottan leik er hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.

 

Við heyrðum af þessu tilefni í miðjumanni Skagaliðsins og lögðum fyrir hann nokkrar spurningar fyrir rimmu kvöldsins:

 

Ef við horfum aðeins á síðasta leik gegn Haukum. Hvernig fannst þér frammistaða Skagaliðsins í þeim leik:

 

“Ég er fyrst og fremst bara virkilega ánægður með stigin þrjú. Aðstæður voru mjög erfiðar þannig að hefðbundið leikplan fer svolítið út um gluggann, fannst við annars bregðast vel við aðstæðum og var ég mjög sáttur að frátöldum fyrstu 30 mínútunum þar sem við vorum að finna taktinn.”

 

Þér hefur persónulega vegnað vel með liðinu á þessum tímabili og ert kominn mð 4 mörk í 9 leikjum - hverju þakkaru það helst og er ekki stefnan að halda uppteknum hætti áfram? Og á ekki að reyna halda uppteknum hætti?

 

“Já þetta hefur gengið bara ágætlega hingað til, ég hef verið að spila aðeins framar og þar af leiðandi aðeins meira frjálsræði í hlaupum og sóknarleik sem skilar sér í fleiri mörkum. Markaskorararnir fá athyglina þannig að sjálfsögðu ætla ég að halda því áfram.”

 

Þú hefur væntanlega fylgst vel með HM síðustu vikur, fylgdistu með úrslitaleiknum og varstu ánægður með úrslitin?

 

“Mikið rétt eins og allir knattspyrnuunnendur gerði ég það og var jú nokkuð sáttur þó ég hafi stutt Argentínu í þessum leik en Þýskaland voru verðskuldaðir sigurvegarar, engin spurning.”

 

Framundan er hörkuslagur gegn KA. Það er lið sem þú þekkir vel til enda lékstu með þeim á sínum tíma. Hvernig horfir sú viðurreign við þér?

 

“Þetta verður virkilega spennandi viðurreign enda hefur KA verið á flottri siglingu. Það er alltaf gaman að mæta þeim gulu að norðan enda átti ég flotta tíma þar þau tvö tímabil sem ég spilaði með þeim, þetta er annars bara leikur sem við ætlum að vinna á okkar heimavelli og höfum við alla burði til þess.” sagði Arnar Már Guðjónsson í stuttu samtali við vefsíðu KFÍA.

 

Við hvetjum Skagamenn til þess að fjölmenna á leikinn í kvöld og styðja drengina í til sigurs í þessum mikilvæga leik í toppbaráttunni.

Til baka