Skagamenn mæta KV á Norðurálsvellinum kl .19.15 á fimmtudaginn

02.07 2014

„Verðum að taka þennan andstæðing mjög alvarlega“ segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA

 

Skagamenn leika á morgun í 9. umferð 1. deildar karla þegar þeir fá lið KV í heimsókn á Norðurálsvöllinn. Skagaliðið hefur verið á fínu róli undanfarnar vikur og unnist hafa fimm leikir í röð en þeir gulklæddu verma 2. sæti deildarinnar þessa stundina með 18 stig en getur með sigri á morgun endurheimt toppsætið.


Gengi KV í deildinni til þessa hefur verið með ágætum en liðið er á sínu fyrsta tímabili í 1. deild karla. Lið þeirra hefur marga spræka stráka á sínum snærum en liðið vermir 11 sæti deildarinnar um þessar mundir með sjö stig.

 

Við heyrðum í Gunnlaugi Jónssyni þjálfara Skagamanna og fengum hann til þess að fara aðeins yfir gang mála með okkur.

 

Skagaliðið átti fínan leik fyrir vestan í síðustu umferð þar sem vannst góður 0-6 sigur á BÍ/Bolungarvík – hvernig fannst þér sá leikur leikinn af okkar hálfu?
„Ég var mjög ánægður með þann sigur, við mættum mjög grimmir til leiks og létum til skarar skríða strax í byrjun og við uppskárum 4 mörk fyrsta hálftímann. Við héldum áfram að sækja á þá eftir hlé og áttum margar fínar sóknir og bættum við tveimur mörkum við. Virkilega flottur leikur og þetta var skemmtilegur dagur hjá okkur fyrir vestan.“

 

Hvernig er standið á hópnum þessa dagana, einhver meiðsli að plaga leikmenn liðsins?
„Standið á hópnum er mjög gott, það eru allir heilir auk þess sem Andri Adolphs hefur fengið grænt ljós að spila með okkur þannig að við höfum úr öllum mannskapnum að velja úr í næsta leik.“

 

Framundan er leikur gegn nýliðum KV á fimmtudaginn kemur. Hvernig lýst þér á þá viðurreign?
„Mér líst vel á leikinn, við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að fá lið í heimsókn sem beðið hefur eftir þessum leik síðan var ljóst að þeir færu upp í 1.deild síðastliðið haust.  Við verðum að taka þennan andstæðing mjög alvarlega og vera tilbúnir í átökin þegar leikurinn byrjar.“

 

Hvaða liði spáirðu að vinni HM titilinn og af hverju?
„Ég spáði því fyrir mót að lið Argentínu myndi vinna HM í stórum tippleik og ég held mig við það það kemur þá helst til vegna þess að þeir hafa Messi í sínum röðum og flotta holningu í kringum hann.“  Sagði Gulli í stuttu samtali við vefsíðu KFÍA

 

Hvetjum alla til að mæta á Norðurálsvöllinn á morgunn en leikurinn hefst kl 19.15.

Til baka