Skagamenn með 0-5 stórsigur á Tindastól norðan heiða.

14.06 2014

Skagamenn mættu fyrr í dag liði Tindastóls í 6. umferð 1. deildar karla og lauk leiknum með öruggum 0-5 sigri okkar manna.

 

Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað í leiknum: Árni Snær, Sindri Snæfells, Ármann Smári, Gylfi Veigar, Darren Lough – Hallur Flosa, Arnar Már Guðjóns, Hjörtur Hjartar, Jón Vilhelm, Wentzel Steinarr – Garðar Gunnlaugs.

 

Byrjun heimamanna í Tindastól á Íslandsmótinu hefur verið brösótt það sem af er móti og vermdi liðið botnsæti deildarinnar fyrir leikinn í dag. Skagamenn voru fyrir leikinn í 3-4 sæti deildarinnar og gátu með sigri lyft sér upp í 2 sæti deildinnar. Það hefur sýnt sig hingað til að enginn leikur er auðveldur í umræddri deild og mættu okkar drengir með því hugafari inn í leikinn. Skagamenn voru búnir að ná forystunni eftir 9 mín leik og þar var á ferðinni Garðar Gunnlaugsson. Þeir gulklæddu fylgdu þessu eftir með öðru marki rétt fyrir hálfleik og þar var Garðar aftur að verki. Staðan var því 0-2 í hálfleik.

 

Skagaliðið var ekki hætt og hélt áfram að bæta við mörkum í síðari hálfleik en á 61 mín leiksins skoraði fyrirliðinn Ármann Smári Björnsson. Það var síðan Wentzel Steinarr sem bætti við fjórða marki Skagamanna um stundarfjórðungi síðar. Stuttu síðar bætti Garðar Gunnlaugs við sínu þriðja marki og í senn fimmta marki Skagamanna.

 

Eins og tölurnar gefa til kynna var Skagaliðið miklu mun sterkara liðið á vellinum og sigurinn afar sanngjarn. Gunnlaugur Jónsson þjálfari liðsins gerði þrjár breytingar á sínu liði þegar á leikinn leið en inn á komu þeir Óli Valur, Þórður Þorsteinn og Eggert Kári. Fleiri urðu mörkin ekki og niðurstaðan eins og áður sagði öruggur 0-5 sigur á Stólunum.

 

Skagaliðið var þarna að vinna sinn þriðja leik í röð í deildinni og hefur þeim einnig tekist að halda markinu hreinu í sömu leikjum. Þegar sex umferðir eru liðnar af mótinu er Skagaliðið í fínum málum í 2 sæti deildarinnar með 12 stig en framundan er einmitt hörkuslagur gegn toppliði Leiknis næstkomandi sunnudag á Norðurálsvellinum.

Til baka