Skagamenn með flottan 1-3 sigur á liði Hauka

10.07 2014

Skagamenn mættu liði Hauka í dag í 10 umferð 1. deildar karla og lyktaði leiknum með frábærum 1-3 útisigri okkar drengja. Leikurinn fór fram á heimavelli Hauka í Hafnarfirði og voru aðstæður til knattspyrnuiðkunnar afar erfiðar. Þéttingsvindur var þvert á völlinn auk þess sem að það hellrigndi meira og minna allan leikinn.

 

Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað: Árni Snær – Sindri Snæfells, Ármann Smári, Gylfi Veigar, Darren Lough – Hallur Flosa, Ingimar Elí, Jón Vilhelm, Andri Adolphs, Arnar Már Guðjóns – Garðar Gunnlaugs.

 

Fyrri hálfleikurinn fór fremur rólega af stað og gekk báðum liðum erfiðlega að byggja upp markverðar sóknir við krefjandi aðstæður. Um miðjan fyrri hálfleikinn fengu Haukarnir fínt færi á markteig eftir gott samspil upp vinstri kantinn en Árni Snær varði vel frá leikmanni Hauka. Stuttu síðar átti Skagaliðið flotta sókn upp vinstri vænginn þar sem Darren Lough átti fína sendingu út í teiginn á Jón Vilhelm sem brást bogalistinn úr góðu færi á markteig.

 

Það var síðan á 43 mín leiksins sem Gylfi Veigar átti langa sendingu fram völlinn þar sem að Arnar Már Guðjónsson nýtti sér misskilning milli markmanns og varnarmanns Hauka og skorði auðveldlega í autt markið. Haukarnir freistuðu þess að jafna eftir þetta og settu nokkra pressu á mark gestanna rétt fyrir hálfleikinn þegar þeir fengu einar þrjár hornspyrnur í röð. Skagamenn náðu að bægja hættunni frá í öll skiptin og eftir þriðju hornspyrnuna brunuðu Skagamenn í skyndisókn og Arnar Már Guðjónsson átti fína fyrirgjöf á Ingimar Elí Hlynsson sem skoraði örugglega í mark heimamanna. Staðan var því 0-2 í hálfleik.

 

Síðari hálfleikur var ekki nema um þriggja mínútna gamall þegar Haukarnir náðu að minnka muninn í 1-2. Það gerði Brynjar Benediktsson með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu í slánna og inn. Bæði lið skiptust á að sækja eftir þetta án þess þó að skapa sér einhver opin marktækifæri.

 

Hallur Flosason átti þó lúmskt skot á á 70 mín leiksins sem markvörður Hauka varði vel aftur fyrir endamörk. Stuttu síðar átti Andri Adolphsson flottan sprett upp vinstri vænginn en þaðan náði hann flottri fyrirgjöf sem Arnar Már Guðjónsson afgreiddi af harðfylgni í netið og staðan orðin 1-3 fyrir Skagaliðið.

 

Gunnlaugur Jónsson þjálfari Skagamanna gerði breytingu á sínu liði á 77 mín leiksins þegar Eggert Kári Karlsson kom inn á fyrir Garðar Gunnlaugsson. Á 85 mín leiksins gerði Gunnlaugur aðra breytingu en þá kom Arnór Snær Guðmundsson inn á fyrir Jón Vilhelm Ákason.

 

Heimamenn í liði Hauka hefðu getað minnkað muninn stuttu síðar þegar þeim brást bogalistinn úr góðu færi á markteig. Leikurinn fjaraði út eftir þetta og niðurstaðan virkilega flottur 1-3 sigur Skagaliðsins á liði Hauka.

 

Það ber að hrósa Skagaliðinu fyrir leikinn í kvöld en liðið reyndi af fremsta megni að halda boltanum með jörðinni og byggja upp sóknir við afar krefjandi aðstæður. Liðið sýndi einnig mikinn karakter með því að landa góðum 1-3 útisigri á öflugu Haukaliði eftir svekkjandi tap í síðustu umferð gegn KV.

 

Með sigrinum styrkti Skagaliðið stöðu sína í 2 sæti deildarinnar en þeir gulklæddu eru með 21 stig eftir 10 umferðir en Leiknisliðið vermir enn toppsætið með 23 stig eftir góðan sigur á liði HK fyrr í kvöld.

 

Næsti leikur Skagamanna verður á Norðurálsvellinum gegn liði KA þriðjudaginn 15. júlí næstkomandi.

Til baka