Skagamenn með flottan 1-3 útisigur á liði Víkinga Ó. fyrir vestan

30.07 2014

Skagamenn gerðu góða ferð vestur í Ólafsvík í kvöld og unnu þar 1-3 sigur á liði Víkinga. Ljóst var að um afar mikilvæga viðurreign var að ræða í toppbáráttu 1. deildar en með sigri hefðu Víkingar getað komið sér í 2. sæti deildarinnar og að sama skapi hefði Skagaliðið getað styrkt stöðu sína í 2. sætinu með sigri.

 

Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað: Páll Gísli – Teitur Péturs, Arnór Snær, Ármann Smári, Darren Lough – Ingimar Elí, Arnar Már, Ólafur Valur, Eggert Kári, Hjörtur Hjartar – Garðar Gunnlaugs.
Skagamenn náðu forystu í leiknum þegar um stundarfjórðungur var liðinn en þá skoraði Garðar Gunnlaugsson gott mark af markteig með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Heimamenn freistuðu þess að jafna metin fyrir hálfleikinn og skoruðu þeir mark sem dæmt var af eftir brot á Páli Gísla í marki Skagamanna.

 

Í síðari hálfleik reyndu heimamenn að jafna metin en Skagavörnin var þétt fyrir en það var síðan á 80 mín leiksins sem Páll Gísli átti langa sendingu fram völlinn og við boltanum tók Hjörtur J. Hjartarson og afgreiddi hann örugglega framhjá markmanni heimamanna. Staðan orðin 0-2 fyrir þá gulklæddu.
Skagaliðið fylgdi þessu eftir og bætti við þriðja markinu örfáum mínútum síðar og það skoraði Garðar Gunnlaugsson og þá sitt annað mark í leiknum. Garðar var þarna að skora sitt 13. mark í jafnmörgum leikjum í sumar.

 

Gunnlaugur Jónsson gerði þrjár breytingar á sínu liði í seinni hálfleiknum en Jón Björgvin kom inn á fyrir Óla Val á 79 mín leiksins og á 84 mín leiksins komu þeir Andri Júlíusson og Gylfi Veigar inn á fyrir markaskorarana, þá Garðar og Hjört.

 

Víkingum tókst að minnka muninn undir lok leiksins með marki úr vítaspyrnu og þar við sat og niðurstaðan frábær 1-3 sigur okkar drengja á erfiðum útivelli.
Skagaliðið hefur sýnt mikinn karakter með öruggum sigrum í tveimur síðustu leikjum á sterkum andstæðingum eftir dapurt gengi í leikjunum á undan. Það er ennþá nóg eftir af mótinu en með sigrinum í kvöld þá styrkti Skagaliðið stöðu sína í 2. sæti deildarinnar með 27 stig.

 

Næsti leikur Skagamanna verður á Norðurálsvellinum gegn liði Þróttara föstudaginn 8. ágúst.

Til baka