Skagamenn ná dýrmætu stigi í Árbænum

30.08 2015

Skagamenn heimsóttu Fylki í kvöld á Fylkisvöllinn og endaði leikurinn með markalausu jafntefli. Leikurinn hófst af krafti af hálfu heimamanna og áttu þeir nokkur ágæt marktækifæri í fyrri hálfleik en þeir náðu ekki að nýta sér þau gegn sterkri vörn okkar manna. ÍA fékk afar fá færi í hálfleiknum og var byggt á sterkum varnarleik og skyndisóknum. Menn stóðu fyrir sínu í varnarleiknum og staðan var markalaus í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik héldu Fylkismenn áfram að sækja en komust lítt áleiðis gegn vörninni þar sem Ármann Smári Björnsson og Arnór Snær Guðmundsson voru í aðalhlutverki. Skagamenn sköpuðu sér nokkur ágæt færi í hálfleiknum og átti Jón Vilhelm Ákason gott skot úr aukaspyrnu og Ármann Smári átti góðan skalla yfir markið. Það var svo á 69. mínútu þegar leikurinn breyttist þegar Arnar Már Guðjónsson fékk sitt annað gula spjald og þar með brottvísun fyrir frekar litlar sakir. Skömmu síðar gerðu Skagamenn svo kröfu um vítaspyrnu þegar Jón Vilhelm Ákason var klárlega felldur í vítateig Fylkis en dómarinn var ekki á sama máli. Vörnin hélt þó áfram sínu striki og Árni Snær Ólafsson átti nokkrar góðar vörslur undir lok leiksins. Leikurinn fjaraði svo út í framhaldinu.

 

Leikurinn endaði því með markalausu jafntefli þar sem Fylkismenn voru sterkari aðilinn lengstan hluta leiksins en Skagamenn komu af krafti inn í seinni hálfleik og áttu sín færi. Tvær stórar ákvarðanir frá dómara leiksins gerðu leik liðsins erfiðari en það var mikil barátta í okkar mönnum og það skilaði dýrmætu stigi heim sem skiptir okkar menn máli. Næsti leikur liðsins er svo gegn KR sunnudaginn 13. september í gömlum stórveldaslag.

Til baka