Skagamenn taka á móti Eyjamönnum á morgun

11.07 2015

Á morgun klárast fyrri helmingur Pepsi-deildar karla þegar Skagamenn taka á móti Eyjamönnum á Norðurálsvellinum kl. 17:00 í 11. umferð. Um gríðarlega mikilvægan leik er að ræða fyrir okkar menn til að koma okkur lengra frá fallbaráttunni og halda áfram með góða spilamennsku sem liðið hefur sýnt upp á síðkastið. En Skagamenn eru í 10. sæti deildarinnar og ÍBV í 11. sæti svo um hreinan sex stiga leik er að ræða.

 

Í viðtali við heimasíðuna segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, aðspurður um hvernig leikurinn leggist í hann: „Það eru allir heilir fyrir leikinn fyrir utan Sindra Snæfells, sem ekki hefur getað æft í vikunni. Það er langt síðan að staðan hefur verið svona góð varðandi meiðsli leikmanna. Árni Snær er allur að koma til og verður hann klár í slaginn gegn ÍBV. Eyjamenn hafa verið sannfærandi á síðustu vikum og verkefnið er verðugt sem bíður okkar. Við komum klárir í þennan leik og ætlum okkur sigur.“

 

Við hvetjum Skagamenn til þess að fjölmenna á Norðurálsvöllinn á morgun og hvetja þá gulklæddu til sigurs í þessum gríðarlega mikilvæga leik.

Til baka