Skagamenn töpuðu 0-1 fyrir KV á Norðurálsvellinum

03.07 2014

Skagamenn mættu í kvöld liði KV á Norðurálsvellinum og lyktaði leiknum með svekkjandi 0-1 tapi. Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað í leiknum: Árni Snær, Sindri Snæfells, Ármann Smári, Gylfi Veigar, Darren Lough, Hallur Flosa, Ingimar Elí, Arnar Már, Eggert Kári, Jón Vilhelm og Hjörtur Hjartar.

 

Skagaliðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og áttu nokkrar ágætar sóknir að marki gestanna án þess þó að skapa sér einhver dauðafæri. Þar bar helst að Jón Vilhelm, Arnar Már, Darren Lough og Hallur Flosa áttu allir ágætar skottilraunir sem annað hvort voru varnar af markmanni gestanna eða fóru aftur fyrir endamörk. Lið KV var þétt til baka í fyrri hálfleiknum en skapaði lítið fram á við og var staðan var markalaus í hálfleik.

 

Gestirnir í KV héldu sama skipulagi í seinni hálfleik, voru þéttir til baka og freistuðu þess að beita skyndisóknum. Skagamenn fengu líklegast sitt hættulegasta færi í upphafi hálfleiksins þegar Jón Vilhelm átti fyrirgjöf sem björguð var af marklínu. Stuttu síðar átti KV fína sókn upp hægri kantinn en þaðan kom fín fyrirgjöf fyrir markið sem Kristófer Eggertsson skallaði örugglega í fjærhornið.

 

Skagamenn freistuðu þess að jafna metin eftir þetta en liðinu gekk afar erfiðlega að skapa sér teljandi færi og var það helst ágæt skottilraun Andra Adolphssonar sem fór rétt framhjá markinu, en hann var þá nýkominn inn á sem varamaður. Leikurinn fjaraði út eftir þetta og niðurstaðan afar svekkjandi 0-1 tap gegn liði KV.

 

Skagaliðið hitti á slæman dag í rokinu á Norðurálsvellinum en eftir ágæta spilkafla í fyrri hálfleiknum þá náði liðið sér aldrei á strik í þeim síðari. Leikplan KV manna gekk fullkomlega upp og uppskáru þeir að lokum 0-1 sigur.

 

En það þýðir víst ekki að dvelja lengur við þennan leik heldur horfa til næsta leiks sem verður gegn liði Hauka í Hafnarfirði næstkomandi fimmtudag.

Til baka