Skagamenn töpuðu fyrir blikum í bikarnum

10.06 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Breiðablik í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins. Blikar byrjuðu af krafti og voru búnir að skora mark eftir fimm mínútna leik. Þeir héldu svo áfram að sækja og skapa góð færi en náðu ekki að bæta við fleiri mörkum þrátt fyrir góð færi. Skagamenn komust meira í takt við leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og fengu góð færi sem nýttust ekki. Staðan í hálfleik var því 0-1 fyrir Breiðablik.

 

Seinni hálfleikur hófst svo svipað og sá fyrri endaði. Baráttan var í fyrirrúmi og hvorugt liðið vildi gefa neitt eftir. Skagamenn sóttu töluvert og sköpuðu sér færi. Á 60. mínútu uppskáru okkar menn svo fyrir laun erfiði síns þegar Iain Williamson átti sendingu inn í vítateig blika þar sem Ármann Smári Björnsson skoraði með góðum skalla. Blikarnir sóttu einnig mikið í hálfleiknum en náðu ekki að klára sín færi frekar en ÍA þrátt fyrir góðar tilraunir. Leikurinn endaði því 1-1 og framlenging tók við.

 

Í framlengingunni voru greinileg þreytumerki á báðum liðum en þau börðust af krafti og reyndu að skapa sér markverð færi. Þrátt fyrir góð tækifæri af hálfu beggja liða náði hvorugt þeirra að skapa sér dauðafæri fyrr en nokkuð var liðið á seinni hálfleik framlengingarinnar þegar blikar náðu að skora gott mark. Okkar menn náðu ekki að jafna metin öðru sinni og Breiðablik fór því í 8-liða úrslit með 1-2 sigri. Liðið spilaði samt góðan fótbolta í dag og strákarnir lögðu sig alla fram í leiknum.
 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Aron Ingi, Ármann Smári, Arnór Snær og Hallur. Á miðjunni voru Iain James, Arnór, Steinar og Jón Vilhelm. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Eggert Kári, Ásgeir og Albert.
 

Næsti leikur er svo gegn KR á KR-velli fimmtudaginn 23. júní kl. 19:15 í Pepsi-deildinni. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka