Skagamenn töpuðu gegn FH í kvöld

09.05 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við FH á Kaplakrikavelli en þetta var annar leikur ÍA á Íslandsmótinu. Strákarnir ætluðu að bæta leik sinn eftir tapið gegn ÍBV og byggðu leik sinn upp á sterkum varnarleik og skyndisóknum. Þetta gekk eftir framan af í fyrri hálfleik því FH náði sjaldan að brjóta niður varnarleik ÍA og Árni Snær Ólafsson varði það sem kom á markið. En undir lok hálfleiksins náði FH að skora eftir góða sókn. Sóknarlotur Skagamanna voru fáar og bitlausar og staðan var því 1-0 í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum. FH hélt áfram að sækja en Skagamenn komu ákveðnari í leikinn og fóru að ógna meira. Á 57. mínútu var svo leikmaður FH réttilega rekinn af leikvelli eftir stórhættulega tæklingu á Steinari Þorsteinssyni. Eftir það fóru okkar menn að sækja meira og það skilaði jöfnunarmarki á 82. mínútu þegar Jón Vilhelm Ákason fékk sendingu inn í vítateig FH og afgreiddi boltann í markið, staðan orðin 1-1 og allt mögulegt. Undir lok leiksins náði  FH svo að skora sigurmarkið og okkar menn náðu ekki að jafna metin öðru sinni þrátt fyrir góðar tilraunir. Leikurinn endaði því með 2-1 sigri FH en Skagamenn spiluðu mun betur í dag heldur en í fyrstu umferð.
 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Ármann Smári, Arnór Snær og Þórður Þorsteinn. Á miðjunni voru Albert, Arnar Már og Martin. Í sókninni voru Garðar, Eggert Kári og Steinar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Ólafur Valur, Jón Vilhelm og Ásgeir.
 

Næsti leikur er svo gegn Fjölni á Norðurálsvelli fimmtudaginn 12. maí kl. 19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn eftir frekar erfiða byrjun.

Til baka