Skagamenn töpuðu gegn Fjölni í kvöld

07.08 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Fjölni á Fjölnisvelli í 14. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn stefndu á að komast á sigurbraut eftir tap í síðasta leik en Fjölnir ætlaði sér þrjú stig og halda sig í toppbaráttunni. Nokkurt jafnræði var milli liðanna framan af leik og voru þau að reyna að skapa sér markverð færi. Það var svo á 15. mínútu sem ÍA varð fyrir blóðtöku en þá þurfti Ármann Smári Björnsson að fara af leikvelli vegna meiðsla.

 

Liðið var ekki búið að jafna sig þrem mínútum síðar þegar Fjölnir komst yfir eftir misskilning í vörn okkar manna. Fjölnir var sterkari aðilinn og skapaði sér ágæt færi og á 37. mínútu bættu þeir öðru marki við. Mikil barátta var í fyrri hálfleik og Skagamönnum gekk á löngum köflum illa að halda boltanum innan liðsins. Á sama tíma voru Fjölnismenn töluvert meira með boltann en náðu ekki að brjóta niður vörn ÍA. Staðan í hálfleik var því 2-0.


Skagamenn komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og ætluðu að gefa sig alla í leikinn. Fjölnir beitti góðum skyndisóknum og það skilaði þriðja marki þeirra á 54. mínútu. Í framhaldinu fengu heimamenn svo nokkur ágæt færi eftir það en náðu ekki að nýta þau.

 

ÍA reyndi þó að sækja og átti margar efnilegar sóknarlotur í hálfleiknum en ávallt vantaði endapunktinn. Þó var ánægjulegt að sjá að Skagamenn héldu áfram að sækja og reyna að minnka muninn. Á lokamínútunni urðu okkar menn svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark í fjórða marki Fjölnis. Leiknum lauk því með 4-0 sigri Fjölnis.  


Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Þórður, Ármann Smári, Arnór Snær og Darren. Á miðjunni voru Iain James, Arnar Már, Ólafur Valur og Ásgeir. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Gylfi Veigar, Aron Ingi og Jón Vilhelm.

 

Næsti leikur er svo gegn Víkingi Ólafsvík á Norðurálsvelli mánudaginn 15. ágúst kl. 18:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka