Skagamenn töpuðu fyrir KR í baráttuleik

15.09 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við KR á Norðurálsvelli í 19. umferð Pepsi-deildarinnar. KR byrjaði af krafti og var sterkari aðilinn framan af án þess að skapa sér markverð færi. Skagamenn lágu frekar til baka og beittu skyndisóknum eftir því sem tækifæri gafst. Nokkur álitleg færi komu fram en það náðist ekki að nýta þau. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Staðan í hálfleik var markalaus.

 

Seinni hálfleikur hófst svo á svipaðan hátt og sá fyrri endaði. Bæði lið reyndu að sækja en fátt var um fína drætti og höfðu aðstæður mikið að segja um flæði leiksins en völlurinn var blautur og þungur. KR var samt alltaf líklegra með sína sterku sóknarmenn og á 61. mínútu komust þeir yfir eftir góða sókn. 

 

Skagamenn börðust þó áfram af krafti og áttu góðar sóknir til að jafna metin en sem fyrr var vandamálið að nýta færin og koma boltanum í netið. Gestirnir drógu sig svo aðeins aftar á völlinn og beittu skyndisóknum sem ollu oft usla í vörn ÍA. Þrátt fyrir ágætar sóknarlotur Skagamanna undir lokin náðist ekki að jafna metin. Leikurinn endaði því 0-1 fyrir KR.

 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Gylfi Veigar, Ármann og Hallur. Á miðjunni voru Guðmundur Böðvar, Iain James og Arnar Már. Í sókninni voru Ólafur Valur, Garðar og Þórður Þorsteinn. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Tryggvi Hrafn, Albert og Arnór.


Næsti leikur er svo gegn Stjörnunni á Samsungvellinum mánudaginn 19. september kl. 20:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka