Skagamenn töpuðu gegn Stjörnunni í kvöld

20.09 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Stjörnuna á Samsung vellinum í 20. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn þurftu á þremur stigum að halda ef þeir ætluðu að halda sér í baráttu um Evrópusæti. Leikurinn hófst af krafti af hálfu Skagamanna og eftir þriggja mínútna leik kom fyrsta mark leiksins þegar Stjarnan skoraði sjálfsmark eftir góða sókn ÍA.

 

Leikurinn var frekar hraður og máttu varnarmenn liðanna hafa sig alla við. Bæði lið héldu sköpuðu sér ágæt marktækifæri en þau náðu ekki að koma boltanum í netið. Allt útlit var fyrir að ÍA héldi forystunni til hálfleiks en á lokamínútunni náði Stjarnan að skora eftir hornspyrnu og klaufagang í vörninni. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

 
Seinni hálfleikur hófst svo virkilega illa því gott færi misfórst strax í byrjun og skömmu síðar náði Stjarnan að skora sitt annað mark. Skagamenn reyndu að sækja til að jafna metin og sköpuðu sér virkilega góð færi en á einhvern ótrúlegan hátt náði ÍA ekki að jafna metin.

 

Stjarnan skoraði svo sitt þriðja mark úr hornspyrnu þegar langt var liðið á leikinn og bökkuðu heimamenn frekar eftir það. Skagamenn héldu áfram að reyna að minnka muninn en náðu ekki að ógna marki Stjörnunnar að ráði. Stjarnan vann því 3-1 sigur þar sem ÍA spilaði ágætlega á löngum köflum og hefði átt að ná jafntefli hið minnsta ef marktækifærin hefðu verið nýtt í leiknum.

 
Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Hallur, Gylfi Veigar, Hafþór og Darren. Á miðjunni voru Þórður Þorsteinn, Albert, Arnar Már og Iain James. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Arnór, Ólafur Valur og Steinar.


Næsti leikur er svo gegn Breiðablik á Norðurálsvelli sunnudaginn 25. september kl. 14:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn í síðasta heimaleik sumarsins. 

Til baka