Skagamenn töpuðu gegn Þrótti í kvöld

12.09 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Þrótt R á Þróttarvelli í 18. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn þurftu á þremur stigum að halda til að koma sér í baráttu um Evrópusæti. Leikurinn hófst af krafti af hálfu beggja liða og sköpuðu þau bæði sér virkilega góð færi sem nýttust ekki. Leikurinn var frekar hraður og máttu varnarmenn liðanna hafa sig alla við.

 

Eitthvað varð undan að láta og um miðjan hálfleikinn komust Þróttarar yfir með skoti fyrir utan vítateig. Skagamenn sóttu stíft eftir markið og voru klaufar að nýta ekki eitthvert þeirra færa sem skapaðist. Á sama tíma voru varnarmenn ÍA ekki á tánum á köflum og voru þeir heppnir að sóknarmenn Þróttar skoruðu ekki úr mjög góðum færum. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir Þrótt.

 

Seinni hálfleikur hófst svo virkilega illa því gott færi misfórst strax í byrjun og mínútu síðar náðu Þróttarar að skora sitt annað mark. Skagamenn reyndu að sækja en leikur liðsins var ekki markviss og sóknarloturnar voru frekar marklausar. Ágæt færi sköpuðust þó en þegar seinni hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður skoruðu Þróttarar sitt þriðja mark úr skyndisókn og þar með var leikurinn búinn.

 

Skagamenn náðu að klóra í bakkann undir lok leiksins þegar Jón Vilhelm Ákason skoraði með skalla eftir sendingu frá Þórði Þorsteini Þórðarsyni. Fátt markvert gerðist eftir það og Þróttarar unnu verðskuldaðan sigur 3-1 þar sem okkar menn mega bæta leik sinn umtalsvert fyrir næsta leik.

 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Aron Ingi, Gylfi Veigar, Ármann og Þórður Þorsteinn. Á miðjunni voru Guðmundur Böðvar, Albert, Arnar Már og Ólafur Valur. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Jón Vilhelm, Iain James og Ásgeir.
 

Næsti leikur er svo gegn KR á Norðurálsvelli fimmtudaginn 15. september kl. 17:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka