Skagamenn unnu frábæran sigur á Fylki

22.08 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Fylki á Fylkisvelli í 16. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn þurftu á þremur stigum að halda til að tryggja sig enn betur frá botnbaráttunni. Nokkurt jafnræði var milli liðanna á fyrstu mínútunum en strax á 10. mínútu skoraði Albert Hafsteinsson með góðu skoti eftir stoðsendingu frá Halli Flosasyni.

 

Eftir það héldu bæði lið áfram að sækja en náðu ekki að skapa sér markverð tækifæri. Á 27. mínútu fengu Skagamenn aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Fylkis. Darren Lough tók spyrnuna og skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. ÍA fékk nokkur álitleg færi eftir mörkin en náði ekki að nýta þau. Staðan í hálfleik var því 0-2.

 

Seinni hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Baráttan var í fyrirrúmi og stundum var það á kostnað fótboltans en bæði lið ætluðu sér stóra hluti í leiknum í dag. Skagamenn voru þó sterkari og eftir því sem leið á hálfleikinn tóku þeir leikinn að miklu leyti yfir. Fylkismenn áttu nokkur hálffæri en náðu aldrei að ógna sterkri vörn ÍA að miklu leyti.

 

Á 57. mínútu má segja að úrslitin hafi verið klár þegar Garðar Gunnlaugsson skoraði með góðu skoti eftir stoðsendingu frá Halli Flosasyni, önnur stoðsending hans í leiknum. ÍA fékk svo nokkur mjög góð færi eftir það og var Tryggi Hrafn Haraldsson virkilega óheppinn að skora ekki sitt fyrsta mark í sumar.

 

Baráttan var í algleymingi í þessum leik og ætluðu okkar menn að skila þremur stigum í hús sem gerðist að lokum. Leikurinn endaði því með 0-3 sigri ÍA þar sem liðsheildin skóp þennan frábæra útisigur.

 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Gylfi Veigar, Ármann og Hallur. Á miðjunni voru Iain James, Albert, Arnar Már og Þórður Þorsteinn. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Arnór, Andri Geir og Aron Ingi. 

 

Næsti leikur er svo gegn Víkingi R á Norðurálsvelli sunnudaginn 28. ágúst kl. 18:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka